spot_img
HomeFréttirBenedikt: Alls ekki hræddur við leikinn á mánudag

Benedikt: Alls ekki hræddur við leikinn á mánudag

 
,,Við erum að fá á okkur 92 stig og það er nokkuð ljóst að við vinnum ekki leiki svoleiðis,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR í samtali við Karfan.is eftir fyrstu úrslitaviðureign KR og Hamars í Iceland Express deild kvenna. Lokatölur í Vesturbænum voru 79-92 Hamri í vil og er þetta mesti stigafjöldi sem KR hefur fengið á sig þessa leiktíðina.
,,Okkar styrkur er varnarleikurinn og hann hefur fleytt okkur þangað sem við erum og vörnin er nánast lykillinn að öllum okkar sigrum, sterk maður á mann vörn. Einar og Björgvin (dómarar leiksins) félagar mínir í þessari hreyfingu eru góðir dómarar en ef þetta er línan í úrslitaeinvígi að við fáum ekki að spila aggressíva maður á mann vörn þá verður þetta mjög erfitt,“ sagði Benedikt en bæði liðin, KR og Hamar, voru í töluverðum villuvandræðum í kvöld.
 
,,Við vorum í maður á mann vörn í fyrri hálfleik þar sem við leiddum megnið af honum en það kostaði að lykilleikmenn fengu á sig villur og í seinni hálfleik neyddist maður til að fara í svæðisvörn til að halda lykilleikmönnum innan vallar. Þannig að jafn góðir og dómarar kvöldsins eru þá er ég ekki hrifinn af þeirri línu að dæma á allt. Maður er búinn að leggja mikla vinnu í varnarleikinn og gerði það t.d. með fínum árangri karlamegin en kannski er línan öðruvísi í úrslitum kvenna,“ sagði Benedikt sem kveðst ekki smeykur við leikinn í Hveragerði á mánudag.
 
,,Einhverra hluta vegna höfum við tapað fjórum leikjum í vetur og öllum á heimavelli, ekki neinum á útivelli svo ég er alls ekki hræddur við leikinn á mánudag í Hveragerði. Ég vona að við fáum að spila okkar leik og þá erum við í fínum málum.“
 
Fréttir
- Auglýsing -