spot_img
HomeFréttirKristrún: Verður erfiðara á mánudag

Kristrún: Verður erfiðara á mánudag

 
,,Við eigum von á því að KR komi mun sterkari til baka eftir þennan leik svo þetta verður mun erfiðara á mánudag. Við þurfum að ná okkur niður eftir leikinn í kvöld og koma dýrvitlausar til leiks á mánudag því að þær spiluðu stíft í kvöld og lentu í villuvandræðum en spila örugglega stíft á mánudag. Við þurfum bara að mæta því,“ sagði Kristrún Sigurjónsdóttir sem gerði 27 stig fyrir Hamar í DHL-Höllinni í kvöld þegar Hvergerðingar tóku 1-0 forystu í úrslitaeinvíginu gegn KR í Iceland Express deild kvenna.
,,Við nýttum okkur opnu sniðskotin sem við sköpuðum okkur gegn pressu KR. Við áttum allt eins von á því að KR myndi pressa og höfum fengið pressur á okkur í allan vetur svo þetta kom þannig séð ekkert á óvart,“ sagði Kristrún sem er nýkomin úr erfiðu einvígi gegn Keflavík á meðan KR fékk lengri hvíld. Hvernig metur hún þá staðreynd, var hvíldin slæm fyrir KR og gott fyrir Hamar að koma úr oddaleik inn í úrslitin?
 
,,Ég held að þetta skipti ekki máli því það eru allir í góðu formi núna og þetta hafi því ekki áhrif,“ sagði Kristrún sem heldur nú á dyntóttan heimavöll.
 
,,Vonandi á það eftir að ganga vel að verja heimavöllinn því hingað til hefur það gengið misjafnlega en hann hefur skilað okkur hingað og vonandi að hann haldi áfram að virka fyrir okkur.“
 
Fréttir
- Auglýsing -