Njarðvíkingar unnu í kvöld öruggan sigur á Stjörnumönnum í Ásgarði, 64-76 í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum í Iceland Express deild karla.
Njarðvíkingar mættu af miklum krafti til leiks og komust strax í 0-7 í byrjun leiks, en vankaðir Stjörnumenn virtust ekki átta sig á því að leikurinn væri hafinn. Njarðvíkingar spiluðu góða vörn og voru fljótir fram í sóknina, en á sama tíma léku Stjörnumenn af óöryggi og hélst helst til illa á boltanum. Stjörnumenn rönkuðu við sér um miðjan fyrsta leikhluta, hertu vörnina og fóru að salla nokkrum stigum á gestina, eftir að hafa lent 9-20 undir. Góður leikkafli Stjörnunnar stoppaði þó við þriggja stiga muninn, 17-20 þegar rúmar tvær mínútur lifðu af upphafsleikhlutanum og tvær þriggja stiga körfur frá Njarðvíkingum lokuðu leikhlutanum, 17-26.
Sóknarleikur beggja liða varð eftir á bekknum í öðrum leikhluta, en aðeins 14 stig voru skoruð á fyrstu 6 mínútum leikhlutans, 9 frá heimamönnum og 5 frá gestunum. Aðeins lifnaði yfir leiknum eftir það og tókst Stjörnumönnum að minnka muninn í eitt stig fyrir hálfleik með þriggja stiga körfu frá Jovan Zdravevski, 34-35.
Stjörnumönnum hafði farist það illa að skora í upphafi fyrsta og annars leikhluta, en var algjörlega fyrirmunað að finna leiðina í gegnum þétta Njarðvíkurvörnina í upphafi þess þriðja. Það tók heilar 6 mínútur fyrir Stjörnumenn að skora sín fyrstu stig í seinni hálfleik, en þá þegar höfðu Njarðvíkingar skorað heil 14 stig. Stjörnumenn áttu áfram erfitt að finna körfu gestanna og tóku heilar tvær mínútur til að skora næstu körfu og virtust alveg heillum horfnir. Njarðvíkingar voru komnir með leikinn í sínar hendur og leiddu með 13 stigum eftir þriðja leikhluta, 57-44 og fátt sem virtist benda til annars en að sigurinn endaði þeirra megin.
Fjórði leikhluti byrjaði á sömu nótum og hinir þrír fyrri, þar sem Stjörnumenn virtust ómögulega geta fundið körfu Njarðvíkinga, en nú liðu rúmar 3 mínútur þar til fyrstu stig Stjörnunnar í leikhlutanum litu dagsins ljós. Þrátt fyrir mikla baráttu, ágæt tilþrif á köflum og pressuvarnir Stjörnumanna dugðu skammt gegn Njarðvíkingum og þó hasar færðist í lokamínútur leiksins þá var öruggur sigur Njarðvíkur aldrei í hættu, lokatölur 64-76.
Reynsla og þekking Njarðvíkinga á úrslitakeppninni skein í gegn í þessum leik. Hvorugt liðanna lék glimrandi sóknarleik, en varnarleikur þeirra grænklæddu var til fyrirmyndar lengst af. Stjörnumenn náðu aldrei að berja í sig stemmningu og létu varnartilbrigði gestanna fara frekar í taugarnar á sér, það kann aldrei góðri lukku að stýra. Gestirnir voru því vel að sigrinum komnir og eru komnir í bílstjórasætið í viðureigninni. Næsti leikur liðanna er á mánudagskvöld kl. 19:15 í Ljónagryfjunni.
Jóhann Árni Ólafsson gerði 21 stig í liði gestanna í kvöld og næstur kom Nick Bradford með 13 stig. Hjá Stjörnunni var Jovan Zdravevski með 20 stig og Justin Shouse gerði 16.
Umfjöllun: Snorri Örn Arnaldsson



