KR er komið í undanúrslit Iceland Express deildar karla eftir að hafa sópað ÍR 2-0 út í sumarið í 8-liða úrslitum. Annar leikur liðanna fór fram í Seljaskóla í dag þar sem lokatölur voru 81-103 KR í vil. ÍR-ingar komust nærri í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í 64-66 í þriðja leikhluta en það sem eftir lifði leiks var eign KR. Pavel Ermolinski gerði 20 stig, tók 16 fráköst og gaf 6 stoðsendingar hjá KR en í liði ÍR var Robert Jarvis atkvæðamestur með 36 stig.
Fermingar, heiður himinn og bein útsending á Stöð 2 Sport sáu vísast um það að ekki voru margir mættir á leikinn og heimamönnum tókst ekki að fylla sína stúku. Nemanja Sovic gerði 5 fyrstu stig ÍR í leiknum og heimamenn komust í 7-0 áður en deildarmeistarar KR rönkuðu við sér.
Adam var ekki lengi í Paradís því KR-ingar jöfnuðu fljótt metin í 7-7 en þeir leituðu mikið í teiginn að Fannari Ólafssyni sem tók nokkra stund að hrynja í gang og þá átti Pavel Ermolinskij auðvelt með að prjóna sig í gegnum vörn ÍR. Gestirnir komust yfir en heimamenn jöfnuðu í 19-19 en það voru KR-ingar sem leiddu 23-25 eftir opinn og skemmtilegan fyrsta leikhluta. Það bar helst á góma í upphafsleikhlutanum að Morgan Lewis heldur áfram að framleiða plakötin en hann bauð upp á eina ,,poster-troðslu“ og reyndar urðu þær nokkrar slíkar í leiknum.
Heimamenn hertu róðurinn í vörninni í upphafi annars leikhluta og villurnar hrundu inn. Davíð Þór Fritzson kom af bekk ÍR og á nánast mettíma fékk hann 3 villur. Svipaða sögu var að segja með aðra ÍR-inga sem á köflum spiluðu stíft en fengu líka of mikið dæmt á sig. Villurnar í hálfleik voru 16 hjá ÍR en aðeins 5 hjá KR.
Tommy Johnson kom inn á í liði KR í öðrum leikhluta en hafði hægt um sig. KR-ingar voru þó beittir með Pavel fremstan í flokki. Robert Jarvis gerði hvað hann gat til að halda ÍR ekki langt undan með erfiðum þristum sem þó margir hverjir duttu niður.
Finnur Magnússon átti svo góða lokarispu fyrir KR í fyrri hálfleik þar sem hann lokaði fyrstu 20 mínútunum með körfu og villu að auki. Finnur setti niður vítið og gestirnir úr Vesturbænum leiddu 42-52 í hálfleik. Robert Jarvis var með 23 stig í liði ÍR í hálfleik þar sem hann setti niður 5 af 10 þristum sínum en Finnur Atli var með 14 stig hjá KR.
Framan af síðari hálfleik var ekki annað að sjá en að ÍR-ingar væru að verða of seinir í flug í sumarfríið sitt! KR-ingar höfðu það náðugt því heimamenn bara drituðu þristum eins og enginn væri morgundagurinn. Þegar líða fór á leikhlutann hrukku þeir Sovic og Hreggviður af stað fyrir ÍR og það hjálpaði heimamönnum í sókninni sem framan af hafði verið dregin áfram af Jarvis. ÍR-ingar náðu góðu skriði og minnkuðu muninn í 64-66 eftir enn einn Jarvis-þristinn.
KR tók leikhlé og réð sínum ráðum, gestirnir komu dýrvitlausir í lokasprettinn og gerðu 10 síðustu stig leikhlutans þar sem Darri Hilmarsson átti glæsilegar rispur í bæði sókn og vörn. Staðan var því 64-76 fyrir síðustu 10 mínúturnar.
Eftir þriðja leikhluta höfðu ÍR-ingar skorað 64 stig. Robert Jarvis var með meira en helming þeirra eða 34 stig á 30 mínútum!
Darri Hilmarsson opnaði fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu og Pavel Ermolinskij fór svo sterkt upp að körfu ÍR skömmu seinna og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 70-85. Tommy Johnson fór fljótlega af velli í fjórða leikhluta þar sem hann meiddist á fingri, ekki er vitað hvort meiðslin séu alvarleg en Johnson lék ekki meira í leiknum heldur kældi fingurinn það sem eftir var.
Þegar fjórar mínútur voru til leiksloka veittu KR-ingar gestgjöfum sínum náðarhöggið. KR stal boltanum þar sem Morgan Lewis var fyrstur upp völlinn og tróð með tilþrifum, hvað annað? Staðan orðin 74-93 og deildarmeistararnir í miklum ham. Eftirleikurinn var svo auðveldur hjá KR og lokatölur 81-103 KR í vil.
Pavel Ermolinskij átti góðan dag í liði KR með 20 stig, 16 fráköst og 6 stoðsendingar. Næstir komu þeir Fannar Ólafsson og Morgan Lewis með 18 stig, Finnur Magnússon gerði 16 stig og Darri Hilmarsson 13.
Hjá ÍR bar Robert Jarvis af og skoraði 36 stig í leiknum, tók 3 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Nemanja Sovic gerði 20 stig og Hreggviður Magnússon 13. ÍR-ingar voru skítkaldir í dag og sættu sig við að taka of mörg þriggja stiga skot. Þeir settu niður 10 í 29 tilraunum og Jarvis átti 8 þeirra. Þegar ÍR-ingar voru á annað borð að sækja í teiginn gekk þeim best en það var of sjaldan og rétt eins og í fyrsta leik liðanna tóku KR-ingar helmingi fleiri fráköst en ÍR.
ÍR-ingar eru komnir í sumarfrí en KR í undanúrslit. Brösugur vetur að baki hjá ÍR sem skiptu um þjálfara fyrir lokasprettinn í deildinni sem og erlendan leikmann, þá var heimavallarvesen á liðinu sem lék sína heimaleiki í vetur í bæði Seljaskóla og Íþróttahúsi Kennaraháskólans.



