,,Ég skal alveg vera væminn og allt það en ég hélt það virkilega þarna í þriðja leikhluta þegar við minnkuðum muninn í 64-66 að við hefðum ,,mómentið“ og gætum skriðið fram úr þeim. Því miður tókst þetta ekki en strákarnir mínir komu vel inn í þennan leik og við ætluðum okkur að laga tvö atriði fyrir leik dagsins frá síðasta leik og þau heppnuðust en á móti hittu KR vel í dag og mun betur en við reiknuðum með,“ sagði Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR sem í dag lauk keppni í Iceland Express deild karla þessa leiktíðina eftir 2-0 tap gegn KR í 8-liða úrslitum.
,,Varnarleikurinn var mjög góður framan af en á móti liðum eins og KR máttu ekki gleyma þér í einhverjum fagnaðarlátum þegar þú ert bara tveimur stigum yfir. Okkur var bara refsað allt of mikið eftir að við fögnuðum,“ sagði Gunnar en telur hann þetta KR lið vera líklegt til að fara alla leið?
,,Já já, ég gæti alveg séð það en mér finnst önnur lið eins og Keflavíkurliðið hafa verið réttan stíganda í þessu frá áramótum og ég gæti vel trúað að þeir myndu klára þetta mót. Öll þessi lið í efri hlutanum geta þetta og þetta verður alveg frábær úrslitakeppni það sem eftir er og því miður erum við ekki í henni,“ sagði Gunnar en langar hann að vera áfram við stjórnartaumana hjá ÍR?
,,Það bara kemur í ljós, ef það er áhugi fyrir því þá veit maður aldrei.“



