Þrír stórleikir fara fram í kvöld, tveir í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla og önnur viðureign KR og Hamars í Iceland Express deild kvenna. Allir leikirnir þrír hefjast kl. 19:15. Leikur Hamars og KR í Hveragerði verður í beinni útsendingu hjá Sport TV. Þá verður leikur Njarðvíkinga og Stjörnunnar í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Grindavík TV mun svo leggja land undir fót og sýna beint frá öðrum leik Snæfells og Grindavíkur sem fram fer í Stykkishólmi.
Hamar leiðir 1-0 gegn KR eftir frækinn sigur í DHL-Höllinni í fyrsta leik liðanna. Þrjá sigra þarf til þess að verða Íslandsmeistari svo þessi rimma tveggja bestu liða landsins er fjarri því á enda. Þess má svo geta að Hamar hefur enn ekki unnið KR í Blómabænum heldur hafa allir sigrar Hvergerðinga gegn KR komið í Vesturbænum þessa leiktíðina.
Njarðvíkingar leiða 1-0 gegn Stjörnunni en þetta eru liðin sem höfnuðu í 4.-5. sæti að lokinni deildarkeppni. Njarðvíkingar unnu fyrsta leikinn í Ásgarði í Garðabæ og geta því með sigri í kvöld komist áfram í undanúrslit.
Hörkuleikur var í Röstinni þegar Grindavík og Snæfell mættust í sínum fyrsta leik. Snæfell vann 94-95 eftir magnaðan lokasprett. Vinni Hólmarar í kvöld eru þeir komnir í undanúrslit og Grindvíkingar jafnframt þá farnir í sumarfrí.
Fjölmennum á völlinn í kvöld!
Ljósmynd/ Jafnar KR einvígið eða kemst Hamar í 2-0?



