Oddaleikur á fimmtudag! Stjarnan og Njarðvík munu bítast um laust sæti í undanúrslitum Iceland Express deildar karla á fimmtudag þar sem Stjörnumenn lögðu Njarðvíkinga í kvöld 91-95 í Ljónagryfjunni. Liðin hafa því unnið sinn hvorn útileikinn sem ætti að gera það ansi fróðlegt fyrir íslenska Getspá að búa til stuðla á næstu viðureign! Justin Shouse fann margar holur í vörn Njarðvíkur í kvöld og leiddi sína menn til sigurs þar sem hann gerði 27 stig og gaf 12 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Magnús Þór Gunnarsson stigahæstur með 19 stig en Magnús lét vel að sér kveða í síðari hálfleik.
Nick Bradford opnaði leikinn með furðukörfu en hann keyrði upp endalínuna í fyrstu sókninni og hugðist senda boltann inn í teiginn. Fannar Freyr Helgason leikmaður Stjörnunnar slengdi þá hrömmunum í boltann með þeim afleiðingum að hann rúllaði upp í spjaldið og ofaní. Gestirnir létu þetta körfuskrípi ekki slá sig út af laginu heldur gerðu næstu sjö stig leiksins.
Djorde Pantelic var Njarðvíkingum illur viðureignar og eftir þrist frá stóra Serbanum sem breytti stöðunni í 4-14 fyrir gestina tóku Njarðvíkingar leikhlé. Sterkur varnarleikur gestanna var Njarðvíkingum erfiður og Stjarnan leiddi 15-24 eftir fyrsta leikhluta. Hjörtur Hrafn Einarsson átti samt lokaorðið í upphafsleikhlutanum með flautukörfu fyrir Njarðvíkinga. Gestirnir voru að frákasta mun betur en Njarðvíkingar í upphafi leiks og þá leystu þeir vel úr svæðisvörn heimamanna, svo vel að á köflum virtust Njarðvíkingar aldrei hafa smellt sér í svæði áður.
Njarðvíkingar bitu frá sér í upphafi annars leikhluta þar sem Hjörtur Hrafn og Kristján Rúnar tóku nokkrar rispur en Garðbæingar létu ekki slá sig út af laginu. Kjartan Atli Kjartansson svaraði kallinu þegar Njarðvíkingar voru komnir óþægilega nærri. Kjartan gerði átta stig á stuttum kafla fyrir Stjörnuna og þessi munur, um tíu stig, hélst áfram óbreyttur. Njarðvíkingar að elta, Stjarnan að leiða og bættu svo í á lokakaflanum.
Svæðisvörn þeirra Njarðvíkinga var ekki að virka á lokakaflanum sem bauð upp á þrista frá Magnúsi Helgasyni og Justin Shouse og gestirnir leiddu 37-52 í hálfleik. Hjörtur Hrafn hafði þó lokaorðið aftur er hann setti niður sniðskot eftir glæsilega sendingu frá Magnúsi Þór Gunnarssyni.
Nick Bradford og Hjörtur Hrafn voru báðir með 8 stig í hálfleik í liði Njarðvíkur en Justin Shouse var kominn með 14 stig hjá Stjörnunni og Djorde Pantelic 11.
Guðmundur Jónsson og Nick Bradford létu til sín taka í þriðja leikhluta í liði heimamanna. Guðmundur fékk fjórar villur í glímunni við Justin Shouse og var ekki par sáttur við niðurstöðuna. Guðmundur var samt að spila fantavel á báðum endum en þegar hann fór af velli með fjórar villur kom Magnús Þór inn á völlinn og tók upp keflið fyrir Guðmund og smellti niður þrist sem minnkaði muninn í 56-59 og rétt rúmar tvær mínútur eftir af þriðja leikhluta.
Að Njarðvíkingar skyldu komast upp að hlið Stjörnunnar lá einhvern veginn alltaf í loftinu í þriðja leikhluta og Kristján Rúnar Sigurðsson færði það til sanns vegar með þrist og staðan 65-65 en það var skammgóður vermir. Djorde Pantelic skellti niður einum þrist fyrir Stjörnuna í næstu sókn og leikar stóðu því 65-68 fyrir Stjörnuna og lokaleikhlutinn framundan.
Fyrstu fimm mínúturnar í fjórða leikhluta voru jafnar og spennandi en svo kom Jovan Zdravevski með langþráðan þrist fyrir Stjörnuna og breytti stöðunni í 74-80. Hjá Njarðvíkingum vantaði einhvern herslumun, Stjörnumenn héltu dauðahaldi í forskotið enda sumarfrí handan við hornið með tapleik í kvöld.
Með þéttum varnarleik tókst Stjörnunni að auka muninn á nýjan leik og hægt er að segja að Justin Shouse hafi gert út um leikinn þegar ein mínúta var til leiksloka. Justin bombaði þá niður þrist og staðan orðin 80-90 Stjörnunni í vil. Njarðvíkingar neituðu þó að gefast upp og minnkuðu muninn í fjögur stig en þar við sat, lokatölur 91-95.
Óhætt er að segja að leikur kvöldsins hafi lagt línurnar fyrir rosalegan oddaleik á fimmtudag. Hér á lokasprettinum komu ódýru höggin, rusltalið og allt það sem menn setja í marineringu fyrir oddaleiki. Stjörnumenn höfðu greinilega ,,stúderað“ varnarleik Njarðvíkinga fyrir leik kvöldsins og Njarðvíkingar að sama skapi ekki í sama gírnum og þeir voru í fyrsta leiknum úti í Garðabæ. Stjarnan gerði afar vel að halda forystunni lungann úr leiknum og fundu oft glufur á vörn Njarðvíkinga.
Varðandi rimmu Guðmundar Jónssonar og Justin Shouse í kvöld skal það sagt að Justin fékk óneitanlega drottningarmeðferð hjá dómurum leiksins og Guðmundur fékk dæmdar á sig villur fyrir afar litlar sakir ef einhverjar voru. Hitt er svo að þegar um 10 sekúndur voru til leiksloka átti Guðmundur að fá sína fimmtu villu þegar hann kýldi Shouse í gólfið en það flokkaðist víst ekki sem leikbrot þó í grófari kantinum hefði verið.
Justin Shouse var stigahæstur í liði Stjörnunnar í kvöld með 27 stig og 12 stoðsendingar og leiddi sína menn áfram í síðari hálfleik þegar Njarðvíkingar voru að nálgast. Djorde Pantelic átti einnig góðan dag fyrir Garðbæinga með 21 stig og 9 fráköst en miðherjinn sterki setti niður þrjá þrista og allir voru þeir á mikilvægum tímapunkti leiksins þar sem Njarðvíkingar voru að anda ofan í hálsmál gestanna.
Hjá Njarðvík var Magnús Þór Gunnarsson stigahæstur með 19 stig en hann lét vel til sín taka í síðari hálfleik. Magnús hefur verið að glíma við meiðsli og lék aðeins í fimm mínútur í leiknum í Garðabæ en kom sterkur inn í viðureign kvöldsins. Næststigahæstur var svo Nick Bradford með 15 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst.
Liðin mætast því í oddaleik á fimmtudag í baráttu um sæti í undanúrslitum deildarinnar. Leikurinn fer fram í Ásgarði í Garðabæ.



