KR konur jöfnuðu einvígið með góðum sigri á andlausum Hamarsstúlkum í Hveragerði í kvöld. Gestirnir úr Vesturbænum mættu brjálaðar til leiks í kvöld og ætluðu sér að hefna ófaranna frá því á föstudaginn, á meðan heimastúlkur virtust ekki vera tilbúnar í þennan. Jafnfræði var með liðunum í stigaskori fyrstu mínúturnar, en gestirnir miklu grimmari bæði í sókn og vörn og einokuðu frákastahluta tölfræðinnar fyrstu mínúturnar og fengu ítrekað tvö til þrjú tækifæri í hverri sókn, og Hamar gátu prísað sig sæla að KR-ingarnir voru ekki að setja skotin sín ofaní.
Staðan eftir fyrsta leikhlutann 17-22 fyrir KR sem tóku 17 fráköst í fyrsta fjórðungnum á meðan heimastúlkur tóku aðeins 3 fráköst. Annar fjórðungurinn var síðan sjálfstætt framhald af þeim fyrsta þar sem gestirnir voru miklu grimmari í öllum sínum aðgerðum og juku forskot sitt jafnt og þétt og staðan orðin 24-38 þegar 3 mínútur voru eftir af fyrri háfleiknum, og Hamarsstelpur virtust ráðvilltar í sóknarleiknum og varnarleikur þeirra var brothættur, en þær náðu aðeins að minnka muninn áður en flautað var til háfleiks, en hálfleikstölur voru 30-42 fyrir KR. Til marks um litla baráttu og takmarkaðan sóknarleik hjá Hamri, fengu þær aðeins á sig 3 villur allan fyrri hálfleikinn á móti 11 villum gestanna.
Hamarsstelpurnar komu aðeins einbeittari til leiks í þrjiðja leikhluta heldur en þeim fyrsta og náðu aðeins að minnka muninn niður fyrir 10 stigin með því að fara að spila smá vörn, en náðu þó ekki að láta kné fylgja kviði og staðan 49-59 þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst. Gestirnir hófu síðasta fjórðinginn 5-2 á fyrstu mínútunni og KR-ingar í fínum málum með 15 stiga forskot, en þær náðu að halda sínu 12-15 stiga forskoti út leikinn og Hamarsstúlkur virtust aldrei líklegar til að koma í veg fyrir þriðja tapið gegn KR á heimavelli í vetur.
Hjá KR var Margrét Kara stigahæst með 19 stig og 10 stoðsendingar, Jenny 15 stig, Signý 13 stig, 13 fráköst og 4 varin skot, Unnur Tara 12 stig, Hildur 11 stig og 19 fráköst og Gróa 9 stig.
Hjá Hamri var Koren Schram stigahæst með 19 stig, Julia Demirer skoraði 15 stig og tók 11 fráköst, Kristrún, Íris og Guðbjörg skoruðu allar 8 stig.
Umfjöllun: Sævar Logi Ólafsson



