Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur í liði Sundsvall í gærkvöldi þegar liðið lenti 2-1 undir gegn Uppsala í 8-liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar. Jakob var stigahæstur í liði Sundsvall með 20 stig, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta.
Uppsala dugir því einn sigur til viðbótar til að senda Sundsvall í sumarfrí. Lokatölur í gærkvöldi voru 67-75 Uppsala í vil og Sundsvall tapaði leiknum á heimavelli. Næsti leikur liðanna fer fram á heimavelli Uppsala en ef Sundsvall tekst að næla sér í sigur þar þá fer oddaleikurinn fram á heimavelli Sundsvall. Liðin mætast í fjórða leiknum sínum annað kvöld.
Þá geta Helgi Magnússon og félagar í Solna Vikings tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri á Sodertalje í kvöld en Solna leiðir einvígið 2-1.



