Haukar tryggðu sér sæti í Iceland Express deildinni á næsta ári með góðum sigri á Val í Vodafone-höllinni, 73-82. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og augljóst var að menn höfðu að miklu að vinna en að sama skapi mikið að tapa. Valsmenn höfðu frumkvæðið framan af í leiknum en Haukar tóku völdin þegar leið á og höfðu mest 14 stiga forskot á lokamínútum leiksins. Stigahæstur í liði Hauka var Semaj Inge með enn einn stórleikinn, 27 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar. Næstir voru Davíð Hermannsson með 16 stig og Sævar Haraldsson með 14 stig. Hjá Val var Hörður Hreiðarsson með 21 stig og 11 fráköst en næstir voru Guðmundur Kristjánsson með 13 stig og Byron Davis með 12 stig.
Jafnt var á flestum tölum í byrjun leiks en Valur hafði þó frumkvæðið. Haukar voru að henda boltanum klaufalega frá sér og höfðu heimamenn 2 stiga forskot þegar fjórar mínútur voru liðnar, 11-9. Valsmenn náðu mest fjögurra stiga forskoti í stöðunni 17-13 en þá komu 5 stig í röð frá gestunum og þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum höfðu þeir náð forskotinu 17-18. Haukar héldu forskotinu það sem eftir lifði leikhlutans og stóðu tölur 19-22 þegar flautað var til loka hans. Hörður Hreiðarsson kom þá í veg fyrir að Haukar kæmust í 5 stiga forskot á lokasekúndunum þegar Haukar hlupu í hraðaupphlaup en Hörður varði sniðskot Óskars Magnússonar í spjaldið stórglæsilega.
Haukar juku forskotið á upphafsmínútum annars leikhluta og höfðu náð 6 stiga forskoti eftir tvær mínútur 21-27. Haukar hefðu hæglega geta bætt við þetta forskot en Valsmönnum tókst ekki að skora í næstu sóknum og á þeim tíma geigaði Semaj Inge úr fjórum vítum í röð. Guðmundur Kristjánsson fór á bekkinn með sína þriðju villu strax þegar annar leikhluti var rétt hálfnaður en þá höfðu Haukar 5 stiga forskot, 25-30. Valsmenn náðu þá virkilega góðum kafla þar sem þeir skoruðu 7 stig gegn engu stigi gestana. Pétur Ingvarsson tók þá leikhlé þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, 32-30. Liðin skiptust á að leiða leikinn það sem eftir var leikhlutans en þegar flautað var til hálfleiks höfðu Valsmenn yfir 41-40.
Stigahæstur í hálfleik í liði Vals var Hörður Hreiðarsson með 9 stig, næstir voru Sigurður Gunnarsson og Byron Davis með 8 stig hvor. Hjá Haukum var Semaj Inge atkvæðamestur með 17 stig en næstir voru Davíð Hermannsson með 8 stig og Sævar Haraldsson með 5 stig.
Haukar byrjuðu þriðja leikhluta mun betur og skoruðu fyrstu 7 stig leikhlutans. Valsmenn voru að reyna erfið þriggja stiga skot sem geiguðu öll og þegar tvær og hálf mínúta var liðin af leikhlutanum tók Yngvi Gunnlaugsson leikhlé, 41-47. Valsmenn minnkuðu muninn smám saman næstu mínútur og þegar leikhutinn var hálfnaður munaði tveimur stigum á liðunum, 49-51. Haukar hleyptu þeim þó ekki nær en það og héldu forskotinu í 4-5 stigum næstu mínúturnar. Haukar leiddu með fjórum stigum þegar flautað var til loka þriðja leikhluta, 55-59.
Haukar mættu enn og aftur mun sterkari til leiks í byrjun fjórða leikhluta og þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum höfðu Haukar skorað 6 fyrstu stigin og náð 10 stiga forskoti, 55-65. Yngvi Gunnlaugsson tók því leikhlé til þess að reyna að vekja sína menn af værum svefni. Allar tilraunir heimamanna til þess að minnka muninn fóru fyrir gýg þegar Valsmenn klikkuðu úr hverju skotinu á fætur öðru. Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu gestirnir náð þrettán stiga forksoti, 56-69, og Yngvi tók annað leikhlé fyrir Valsmenn. Valsmenn voru á þessum tímapunkti með rétt rúmlega 10% nýtingu í skotum fyrir utan þriggja stiga línuna og höfðu aðeins nýtt tvö af 19 skotum sínum þaðan. Valsmenn pressuðu seinustu mínúturnar í leiknum í þeirri von að ná að trufla sóknarleik gestana. Byron Davis fékk sína fimmtu villu þegar tæplega þrjár mínútur voru eftir en þá höfðu heimamenn minnkað forskotið niður í 8 stig, 63-71. Pétur Ingvarsson tók svo leikhlé þegar tvær mínútur voru eftir og munurinn orðinn aðeins 5 stig, 66-71. Helgi Einarsson fór langt með að tryggja sæti Hauka í úvarsldeild þegar hann setti niður þrist um það leiti sem skotklukkan gall og aðeins ein mínúta eftir af leiknum, 66-76. Valsmenn sendu Hauka á línuna við hvert tækifæri en Haukar nýttu vítin sín vel og höfðu, þrátt fyrir heiðarlega tilraun heimamanna 9 stiga sigur, 73-82.
Myndasafn úr leiknum
Gísli Ólafsson



