LeBron James sagði í viðtali að það er óvíst hvort hann verði með bandaríska landsliðinu á HM í Tyrklandi í sumar. James sem var annar fyrirliði bandaríska liðsins sem vann gull á Ólympíuleikunum í Peking verður með lausan samning í sumar ásamt því að hann er að fara leika í bíómynd.
LeBron James sem er skærasta stjarna körfuboltans þessa stundina sagði þetta fyrir leik Cleveland og Milwaukee í nótt þar sem LeBron og félagar unnu 101-98.
James sagði í gærkvöldi að hann myndi helst vilja spila en það væri bara svo mikið að gera í sumar. ,,Ég myndi elska það ef ég hefði tækifæri og tíma til að spila og vera fulltrúi minnar þjóðar. En það er svo margt sem ég þarf að ganga frá fyrst,” sagði LeBron en hans aðal mál í sumar verður að ákveða framtíð sína.
Hann er með lausan samning eftir keppnistímabilið en frá því hann var valinn númer eitt af Cleveland árið 2003 er búið að ræða hvað hvert hann fari næst.
Jerry Colangelo hjá bandaríska körfuknattleikssambandinu sagði að hann hefði ekki miklar áhyggjur af þessu fyrr en í fyrsta lagi í júlí en þá hefst undirbúningur bandaríska liðsins. Fleiri stórstjörnur hafa líst því yfir að þeir myndu mögulega ekki gefa kost á sér en Dwayne Wade og Chris Bosh eru einmitt með lausa samninga í sumar og orðaðir við brottför frá sínum liðum í NBA Miami og Toronto.
En Colangelo bætti við að þeir leikmenn sem gefa ekki kost á sér fyrir HM í sumar án gildrar ástæðu fyrirgera rétti sínum til að spila með á Ólympíuleikunum árið 2012 í London. En það fyrirkomulag hefur verið viðhaft undanfarin ár. ,,Það sama á við hér,” sagði Colangelo um mál LeBron.
Colangelo bætti við að þrátt fyrir að LeBron hafi spilað með bandaríska liðinu 2006-2008 er það engin trygging fyrir því að geta sleppt HM og komist á Ólympíuleikana 2012. Hann sagðist ekki hafa rætt við LeBron um þetta enda ekki þörf á því á þessum tímapunkti. ,,Af hverju að vera með einhverja spádóma um hluti svona snemma. Mér er alveg sama á þessum tímapunkti. Mér verður hinsvegar ekki sama í júlí," sagði Colangelo en þá hefst undirbúningur bandaríska liðsins.
Mynd: Félagarnir LeBron James og Kobe Bryant léku með bandaríska landsliðnu á ÓL í Peking 2008. Verða þeir með á HM í Tyrklandi í sumar?



