spot_img
HomeFréttirTeitur: Sjálfstraustið var þeirra megin

Teitur: Sjálfstraustið var þeirra megin

,,Þeir drógu úr okkur kjarkinn Njarðvíkingarnir með frábærum leik í seinni hálfleik. Við urðum hræddir og þeir fundu blóðbragðið og spiluðu allir vel. Maður hefur oft séð þetta áður og þekkir þetta vel. Mér fannst við á tíma vera að klóra okkur til baka í þriðja leikhluta en þá fær Justin ekki dæmda villu þegar er brotið á honum, Njarðvík fer yfir og setur þrist og munurinn 12 stig í stað þess að við hefðum getað minnkað hann niður í átta. Það var dýrt en það var ekkert eitt atriði sem breytti leiknum, Njarðvíkingar voru bara betri en við,“ sagði Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar eftir oddaleik Garðbæinga og Njarðvíkinga í Ásgarði.
,,Friðrik Stefánsson var farinn að setja þrista og öll vítin hjá honum fóru beint ofan í og sjálfstraustið var bara þeirra megin,“ sagði Teitur en hvað með markmið Stjörnunnar þessa leiktíðina, höfðu þeir sett markið hærra en 8-liða úrslit?
 
,,Okkur var spáð 6.-7 sæti en endum þremur leikjum frá toppsætinu þannig að við getum verið þokkalega sáttir við það en við vildum gera betur, taka næsta áfanga með því að komast í undanúrslit. Við eigum það eftir og höfum tapað í oddaleik í 8-liða úrslitum tvö ár í röð, gegn Snæfell í fyrra og Njarðvík núna. Við þurfum að vera aðeins sterkari á svellinu, stíga þetta næsta skref og ég held að ég viti hvar við þurfum að styrkja okkur,“ sagði Teitur en er það eitthvað hernaðarleyndarmál sem hann vill gefa upp?
 
,,Nei nei, við notum bara sumarið vel til að fara í þau mál,“ sagði Teitur og kvaðst vonast til þess að fá tækifæri til að stýra Garðbæingum áfram.
 
Fréttir
- Auglýsing -