,,Þetta vildu allir nema kannski KR-ingar,“ sagði Ágúst Björgvinsson eftir að Hamar tryggði sér oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í dag með 81-75 sigri á KR. Ágúst var að vonum sáttur með sigur Hamarsliðsins og sagði oddaleik einnig vera bestu niðurstöðuna fyrir einvígið því liðin væru mjög jöfn.
,,Það hefði verið grátlegt fyrir okkur að detta út 3-1, nú fáum við oddaleik þar sem tvö sterkustu lið landsins mætast. Kvennakörfunni veitir ekkert af svona leik og þá hafa leikmenn beggja liða lagt mikið á sig og varla tekið sér frí síðustu árin þannig að þetta er bara frábært fyrir íþróttina,“ sagði Ágúst en með sigri í fyrsta leik, tveimur tapleikjum í röð og svo sigri í fjórða leik er þá einhver óstöðugleiki í leik Hamars þessi misserin?
,,Já og nei, við verðum fyrir miklu áfalli í bæði leik 2 og 3, Julia er enginn smá leikmaður og hún er veik og hún er meidd á fleiri en einum stað þannig að ég og hún tókum þá ákvörðun að leikur 3 skipti minna máli því það væri alltaf annar leikur inni í myndinni. Við ákváðum að það væri skynsamlegast að hún myndi hvíla sig aðeins í leik 3 og það var skynsamlegt enda er staðan í einvíginu 2-2. Næsti leikur er svo bara eins og bikarúrslitaleikur,“ sagði Ágúst en við kláruðum þetta á léttu nótunum með Ágústi að þessu sinni.
Hvað heldur þú svo að Lárus Ingi Friðfinsson þurfi að fara margar ferðir í bæinn á rútunni góðu næsta þriðjudag?
,,Það er erfitt að segja til um það,“ sagði Ágúst kátur en það er næsta víst að Hvergerðingar fjölmenna í DHL-Höllina enda vel mætt í Hveragerði í dag.
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski



