Fyrri undanúrslitaleiknum í bandaríska háskólakörfuboltanum var rétt í þessu að ljúka en þar áttust við Butler Bulldogs og Michigan State. Leikurinn var spennandi frá upphafi til enda en honum lauk með sigri Butler 52-50. Butler fengu tvö víti þegar 6 sekúndur voru til leiksloka og juku muninn þannig í þrjú stig. Tíminn reyndist of naumur fyrir Michigan til þess að stela sigrinum eða knýja fram framlengingu.
Butler Bulldogs myndi kallast lítill skóli í þessari keppni og lögðu þeir nafntogaðan skóla Michigan sem státar af leikmönnum eins og Magic Johnson og fleiri góðum en Magic sjálfur var vitaskuld mættur á leikinn klæddur Michigan bol.
Gordon Hayward var stigahæstur í liði Butler í kvöld með 19 stig og 9 fráköst en hjá Michigan var Durrell Summers með 14 stig og 10 fráköst.
Nú eftir stutta stund hefst svo hinn undanúrslitaleikurinn en þar mætast West Virginia og Duke skólinn. Það lið sem hefur sigur í þeim leik mætir Butler í úrslitum NCAA keppninnar 2010. Úrslitaleikurinn fer svo fram næsta mánudagskvöld.
Ljósmynd/Gordon Hayward gerði 19 stig og tók 9 fráköst fyrir Butler Bulldogs gegn Michigan State.



