spot_img
HomeFréttirHlynur: Vildum tuðruna úr höndum Pavels

Hlynur: Vildum tuðruna úr höndum Pavels

 
,,Við megum ekki monta okkur eitt né neitt en við getum verið ánægðir með þetta,“ sagði Hlynur Bæringsson eftir sigur Snæfells á KR í undanúrslitum Iceland Express deildar karla í kvöld. Lokatölur í DHL-Höllinni voru 84-102 Snæfell í vil sem léku flotta vörn í kvöld og sérstaklega í síðari hálfleik.
,,KR hafa verið rosalega sterkir undanfarin ár svo þetta var sterkur sálfræðiþröskuldur hjá okkur því KR er með massíft lið, flottir í alla staði, með sterka umgjörð og marga áhorfendur svo það er bara rosalega gaman að vera hérna,“ sagði Hlynur en hvernig fóru þeir að því að eigna sér gersamlega allan síðari hálfleikinn?
 
,,Okkar plan leit kannski illa út til að byrja með en það var samt að ganga upp. Við vildum sjá tuðruna sem allra mest úr höndunum á Pavel því það eru margir í liði KR sem vilja bara ekki vera með boltann. Það er líka hrós á Pavel því hann sér völlinn mjög vel en þetta kannski skilar því að aðrir leikmenn KR sem oftast skora ekki mikið fá smá svigrúm og ég get alveg verið sáttur við það svo framarlega sem við gefum ekki layup,“ sagði Hlynur en það var aðallega að klikka hjá Hólmurum í fyrri hálfleik þar sem Finnur Atli Magnússon fann oft glufur á vörn gestanna og skoraði nánast að vild.
 
,,Jón Orri spilaði líka fantavel í kvöld og hann Finnur voru að skora núna þegar við vorum að reyna að halda boltanum fjarri Pavel,“ sagði Hlynur en Snæfellingar rúlluðu á fimm varnarmönnum gegn Pavel í kvöld og Hlynur játt því að það hefði verið ein af undirstöðunum í Snæfellssigri í kvöld.
 
,,Ekki spurning, Pavel er tveggja metra leikstjórnandi og honum finnst ekki gott að hafa varnarmann á sér sem er um 20 sentimetrum minni. Þetta gæti orðið löng sería og við ætlum bara að reyna að þreyta hann því það er ekki gott að láta pressa sig heilan völl kannski fimm leiki en vonandi verða það bara þrír,“ sagði Hlynur sposkur og bætti við að leikplan Hólmara hefði gengið upp í kvöld og að vonandi myndi það gerast líka á miðvikudag.
 
Næsti leikur liðanna er í Stykkishólmi næsta miðvikudag kl. 19:15.
 
Fréttir
- Auglýsing -