Yngvi Gunnlaugsson þjálfari 1. deildarliðs Valsmanna þekkir vel til í íslenska kvennaboltanum enda stýrði hann Haukum til Íslandsmeistaratitils á síðustu leiktíð eftir sigur í oddaleik gegn KR. Karfan.is fékk Yngva til þess að rýna í oddaleikinn í kvöld en Yngvi á frekar von á því að KR hreppi hnossið:
Fyrst og fremst er meiriháttar að annað árið í röð fara úrslit kvenna í oddaleik, þar á undan liðu 10 ár á milli. KR hefur klárlega verið besta liðið í vetur og ættu því að vera sigurstranglegri, þær eru á heimavelli og á pappírum ættu að vera með sterkari hóp. Hamar hefur hins vegar tvisvar skemmt fyrir KR í vetur,fyrst með því að slá þær út úr bikarkeppninni og svo þegar KR fékk deildarmeistaratitilinn afhendan, með það í huga ætti pressan að vera frekar á KR heldur en Hamri.
Ef tekið er mið af hinum leikjum seríunnar þá verður það líð sem ætlar sér sigur að hafa varnarleikinn í fyrirrúmi, sigurliðið hefur alltaf skorað yfir 80 stig og og tapliðið hefur bara einu sinni farið yfir 70 stig, en það var einmitt í síðasta leik. Það ætti að henta KR betur að halda skorinu lágu, en á móti hefur sóknarleikur Hamars verið mjög góður, sér í lagi seinni hluta tímabilsins. KR má ekki stjórnast af því að þær megi ekki spila "sína vörn", þær mega ekki líta framhjá því að Hamarsliðið er hungrað og KR þarf bara að bretta upp ermar og setja undir sig hausinn, dómarar eru hluti af leiknum og eru einu aðilarnir á vellinum sem eru hlutlausir. KR verður hreinlega að vera skynsamar í sínum varnarleik og spila eftir þeirri línu sem er sett, þær eru nógu góðar til þess. Sóknarlega þá hefur Unnur Tara verið frábær og sýnt hvað hún er ótrúlega fjölhæfur leikmaður, Signý verður að þora og Margrét Kara verður að skila sínu. Einnig má ekki gleyma því að Jenny Pfeiffer-Finora, sem oft hefur orðið fyrir ómaklegri gagnrýni, hefur tækifæri til að gefa þeim röddum langt nef og hreinlega springa út.
Hjá Hamri þá erJulia algjör lykill og þrátt fyrir að þurfa ekki að skila miklu stigalega þá tekur hún svo mikið til sín að aðrir njóta góðs af. Koren Schram, sem var nær ósýnileg framan af vetri, hefur heldur betur tekið við sér og er að spila mun betur. Kristrún verður að halda villunum í lágmarki, sér í lagi í fyrri hálfleik. Hamar getur komið mun afslappaðri í leikinn, þær eru á útivelli, félagið hefur aldrei náð svona langt áður og því hafa þær engu að tapa. KR tapaði í oddaleik í fyrra og því óhugsandi fyrir þær að tapa aftur. Ég held að KR hljóti samt að vera mun sigurstranglegri aðilinn og þykir mér því meiri líkur en minni á að þær standi uppi sem Íslandsmeistarar 2010.
Hvernig sem fer þá vona ég bara að leikurinn verði hin besta skemmtun og að liðin og áhangendur þeirra eigi eftir njóta þeirrar körfuboltaveislu sem hreinir úrslitaleikir eru. Umgjörðin hjá KR er meiriháttar, tvö bestu lið landsins etja kappi og þetta verður ekki betra.
Ljósmynd/ [email protected] – Yngvi t.v. ásamt Henning Henningssyni núverandi þjálfara Haukakvenna. Félagarnir með Íslandsmeistaratitilinn að Ásvöllum eftir sigur Hauka gegn KR.



