,,Ég held að það sé enginn að upplifa sama adrenalínið og ég síðustu tvær úrslitakeppnir,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Íslandsmeistara KR í samtali við Karfan.is eftir að Vesturbæingar tryggðu sér þann stóra með sigri á Hamri í oddaleik í Iceland Express deild kvenna. Benedikt varð Íslandsmeistari með karlalið KR í fyrra eftir sigur í oddaleik gegn Grindavík en sú sería var mögnuð. Ekki var hún síðri millum kvennaliðs KR og Hamars þessa leiktíðina svo það skyldi engan undra ef Benedikt Gullkálfur Guðmundsson væri sáttur með síðustu tvö árin sín hjá félaginu.
,,Það eru forréttindi að fá að taka þátt í svona, maður er að koma úr einni flottustu seríu í fyrra sem spiluð hefur verið hérlendis og svo fer maður í oddaleik í kvennaflokki og auðvitað er skemmtilegra að vera í vinningsliðinu á svona stundum. Maður á eftir að lifa lengi á seríunni í fyrra og svo þessari núna, þetta verður ekkert mikið skemmtilegra,“ sagði Benedikt en fann hann fyrir því sem þjálfari KR að sumir leikmenn í liðinu væru að hafa áhyggjur af því að mögulega myndu þær þurfa að sætta sig við silfrið þriðja árið í röð?
,,Við pældum mikið í þessu og undirbúningurinn fyrir þennan leik hérna var þannig að leikmennirnir héldu að þeir væru að koma á einhverja æfingu og svo videofund en þetta var allt sett til hliðar. Það var bara verið að vinna í hugarfarinu fyrir þennan leik. Ég vissi það að ef stelpurnar væru vel stilltar þá myndum við vinna en ef ekki þá myndum við tapa, alveg sama hversu gott lið við værum. Þetta er það sem ég er búinn að læra í kvennaboltanum í vetur, þær spá og spekúlera í hlutum sem maður spáir aldrei í. Þær efast oft um hlutina svo það skiptir rosalega miklu máli að hafa hugarfarið rétt og það var það sem ég og mitt teymi gerðum fyrir þennan leik,“ sagði Benedikt en spárnar rættust. KR var spáð titlinum fyrir mót og það stóð heima.
,,Ef liðin í deildinni hefðu klárað mótið eins og þau byrjuðu það þá held ég að þetta hefði verið öruggara hjá okkur. Svo detta inn leikmenn jafnt og þétt á tímabilinu og að sjálfsögðu gera liðin þetta því það eru allir að reyna að vinna. Þó Chelsea sé spáð titlinum þá þarf það samt að vinna Manchester, Arsenal og Liverpool á tímabilinu, sama hvað allar spár segja. Ég er bara svo sáttur við þessar stelpur að klára þetta því þær hafa lagt mikið á sig og það hefði verið svekkelsi að koma snauðar út úr þessu tíambili,“ sagði Benedikt en ætti atvinnutilboðunum ekki að fara að rigna inn núna? Ef menn ráða Benna til starfa fylgir þá ekki sjálfkrafa með titill?
,,Nei nei, það koma góð ár og það koma slæm ár en það sem ég er ánægðustur með er að ég hef unnið mikið með yngri flokkum KR, búinn að vinna eitthvað karlamegin og núna kvennamegin og get bara ekki sagt annað en að þetta veiti mér mikla ánægju þar sem ég er uppalinn hér.“



