spot_img
HomeFréttirÁgúst: Lögðum okkur fram og spiluðum af krafti

Ágúst: Lögðum okkur fram og spiluðum af krafti

 
,,Það er erfitt að pikka út eitthvað eitt atriði út úr oddaleiknum sem vantaði hjá okkur til að komast upp að hlið KR í seinni hálfleik. Þetta var ekki bara oddaleikurinn heldur voru þetta fimm úrslitaleikir en í oddaleiknum spiluðum við vel, vorum alls ekkert að spila illa þó svo hluturinn hafi ekki gengið upp hjá okkur. Það eru nokkur opin skot sem ekki detta og þannig er þetta bara, það gengur ekki alltaf allt upp en við lögðum okkur fram og spiluðum af krafti,“ sagði Ágúst Björgvinsson þjálfari Hamars sem í gær hafnaði í 2. sæti í Iceland Express deild kvenna eftir magnaðan slag í úrslitum gegn KR.
Var þriðji leikhlutinn of dýr til þess að Hamar ætti von?
,,Hann kostar okkur leikinn, við erum fjórum stigum yfir í hálfleik en lendum svo 12 stigum undir í þriðja leikhluta, þetta var 16 stiga sveifla sem auðvitað var alltof dýr. Það sem eftir lifir leiks erum við að sækja og reyna að vinna upp muninn og það fór of mikil orka í það. Á þessum tíma fáum við líka á okkur of auðveldar körfur,“ sagði Ágúst en varðandi leiktíðina hjá Hamri í heild sinni, er Ágúst sáttur með árangur liðsins?
 
,,Við höfum farið í gegnum þvílík próf á þessari leiktíð, við setjum saman nýtt lið og förum í gegnum margar hindranir. Við lendum 2-1 undir gegn Keflavík í undanúrslitum, komum til baka og vinnum það einvígi, svo lendum við aftur undir hérna 2-1 en tryggjum okkur oddaleik og sigurinn ræðst á einhverju einu eða tveimur skotum. Eitt til tvö sóknarfráköst, eitt til tvö skot ofan í eða ekki ofan í, það er munurinn,“ sagði Ágúst en hvernig bjóst hann við KR í oddaleiknum eftir að liðið hafði unnið til silfurverðlaunin tvö síðustu ár?
 
,,Auðvitað eru silfurverðlaun síðustu tveggja ára eitthvað sem gat keyrt KR áfram, því fylgir samt aukin pressa en KR höndlaði hana vel í oddaleiknum svo það má ekkert taka frá þeim því þær áttu sigurinn skilinn,“ sagði Ágúst en að sama skapi hefur hann ásamt Hvergerðingum heldur betur breytt landslaginu þar á bæ.
 
,,Þetta er besti árangur sem liðið hefur náð, þetta er flottur árangur þar sem liðið hefur bara verið fjögur ár í efstu deild og er nú komið í keppni þeirra bestu. Við tókum flott og stórt skref í vetur,“ sagði Ágúst en mun komandi sumar hafa einhver fleiri og jafnvel háleitari markmið í för með sér en sett voru upp fyrir þetta keppnistímabil?
 
,,Ég þarf bara að skoða það, markmiðið er í rauninni alltaf það sama, að bæta sig í hverjum þætti, ég sem þjálfari og stelpurnar sem leikmenn og halda áfram bara að vinna í sínum leik,“ sagði Ágúst og verður forvitnilegt að sjá hvaða stefnu nýja stóra liðið í íslenska kvennakörfuboltanum tekur eftir þessa leiktíð.
 
Fréttir
- Auglýsing -