,,Ég held að hann sé að gróa við mig,“ sagði Hildur Sigurðardóttir fyrirliði KR í samtali við Karfan.is í gærkvöldi þar sem hún hélt á Íslandsmeistaratitlinum. Augljóst var að þungu fargi var af Hildi létt í gær þegar KR varð Íslandsmeistari í Iceland Express deild kvenna en síðustu tvær leiktíðar á undan hafði KR tapað úrslitaseríunni, fyrst gegn Keflavík og svo gegn Haukum.
,,Kannski voru silfurverðlaunin frá síðustu tveimur tímabilum að búa til einhverja pressu hérna en ég veit reyndar ekkert hvar þessi silfurverðlaun eru niðurkomin núna. Ég var annars ekkert með hugann við síðustu tvö ár, ég hugsa bara um að vinna, hugsa lítið um það liðna,“ sagði Hildur en getur þá verið að það hugarfar hafi haldið KR við efnið á lokasprettinum þegar ágangur Hamarskvenna var sem mestur?
,,Já ætli það ekki bara, við sýndum gríðarlegan vilja hérna undir lokin eins og stolni boltinn hjá Unni Töru sýndi og þetta var bara frábært. Áhorfendur voru að fá þvílíka skemmtun og ég er mjög ánægð að hafa fengið að taka þátt í þessari skemmtun,“ sagði Hildur en er þetta stærsti leikur sem hún hefur tekið þátt í?
,,Eins og ég segi þá er ég fljót að gleyma en ég held samt að þetta sé stærsti og skemmtilegasti leikur sem ég hef spilað, ég þarf að fletta einhverju upp til að finna eitthvað betra en þetta,“ sagði Hildur en þá var komið að ótímabærustu spurningu kvöldsins.
Eitthvað farin að huga að næstu leiktíð?
,,Nei, ég klára bara þetta og prófin mín, annars finnst mér gott að vera í KR því ég elska KR.“



