,,Ég hef trú á því að við komum til baka eftir svona leik, þetta er ekki sama liðið og mætti til leiks síðasta mánudag. Við vorum bara undir í allri stöðubaráttu og það er ekki hægt að vinna leik svoleiðis,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells í samtali við Karfan.is í kvöld. Snæfell lá stórt á heimavelli gegn Íslandsmeisturunum sem jöfnuðu undanúrslitaeinvígið 1-1 með stórsigri í Hólminum.
Varð það ykkur kannski að falli í kvöld að sigur ykkar var stór í fyrsta leik liðanna?
,,Nei nei, alls ekki. Menn vita alveg að KR er með ofboðslega sterkt lið og ekki að ástæðulausu að þeir enduðu efstir í deildarkeppninni. Það þarf ekki nema einn til tvo leikmenn sem eru ekki á tánum í svona einvígi og þá getur farið illa enda kom það á daginn að við vorum ekki með alla okkar menn á tánum í kvöld. Við fórum illa út úr þessu frákastalega séð og í hálfleik er KR með helmingi fleiri fráköst en við. Við náum svo að minnka muninn í einhver níu stig en þá byrja KR að frákasta vel aftur og það á ekki að vera algengt hér í Stykkishólmi,“ sagði Ingi Þór enda Hólmurinn heimavöllur Hlyns Bæringssonar sem er þekktur fyrir fátt annað en að ráða í sínum eigin teig.
Skotnýtingin var að stríða heimamönnum framan af leik en hún lagaðist smávægilega á lokasprettinum en voru það vonbrigði fyrir Snæfell að ,,ströggla“ á sínum eigin körfum?
,,Það skiptir ekki máli hvort við séum á útivelli eða heimavelli því frammistaða leikmanna var bara ekki alveg nógu góð og liðið í heild sinni ekki nógu gott. Nú þurfum við bara að svara þessu og staðan er 1-1 og langur vegur eftir.“



