spot_img
HomeFréttirKlósettrúllukast mældist illa fyrir meðal leikmanna Snæfells

Klósettrúllukast mældist illa fyrir meðal leikmanna Snæfells

 
Um leið og leiktíminn rann út í kvöldi í annarri viðureign Snæfells og KR í undanúrslitum Iceland Express deildar karla gerðist fáséður atburður þegar nokkrir af stuðningsmönnum KR grýttu klósettrúllum inn á leikvöllinn. Skilaboðin voru skýr enda lokatölur í leiknum 88-107 KR í vil. Tveir af leikmönnum Snæfells misbauð þessi gjörningur og grýttu nokkrum af rúllunum aftur upp í stúkuna til KR-inga.
Tekið skal fram að um leið og lokaflautan í leiknum gall þá fuku salernisrúllurnar inn á völlinn og það varð enginn fyrir þeim, nema kannski beygður andi tveggja leikmanna heimaliðsins sem grýttu rúllunum aftur þaðan sem þær komu.
 
Þó vissulega sjái eflaust einhverjir skoplegu hliðina á því að senda viðlíka skilaboð og stuðningsmenn KR gerðu í gærkvöldi þá ættu stuðningsmenn kappliða ekki að leggja það í vana sinn að grýta nokkrum sköpuðum hlut inn á vellina, hvorki fyrir, eftir eða á meðan leik stendur.
 
Ljósmynd/ Hólmarar máttu ganga af velli sem skartaði skeinipappír.
Fréttir
- Auglýsing -