spot_img
HomeFréttirNelson sigursælasti þjálfari í sögu NBA

Nelson sigursælasti þjálfari í sögu NBA

Don Nelson er sigursælasti þjálfarinn í sögu NBA-deildarinnar, en sigur Golden State á Minnesota í nótt var sá 1333. á ferli hans, einum fleiri en Lenny Wilkens vann á sínum tíma. Hann hefur á móti tapað 1061 leik á 31 árs ferli með Golden State, Milwaukee, NY Knicks og Dallas.
 
Hann hefur þrisvar verið valinn þjálfari ársins en aldrei komið liði sínu í úrslit NBA. Hann vann þó fimm titla sem leikmaður með gullaldarliði Boston Celtics á sjöunda áratugnum.
 
Nelson hefur á ferli sínum, sem hófst í Milwaukee árið 1976, verið umdeildur og ekki verið hræddur við að fara sínar eigin leiðir. Hann hefur alla tíð lagt áherslu á hraðan og skemmtilegan leik, þó titlarnir hafi látið á sér standa.
 
Þegar metið var í höfn sagði Nelson: „Þetta er frábær tilfinning. Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að við förum út í þjálfun. Fyrir svona augnablik.“
 
Nelson minntist einnig á Wilkens sem hann sagði hafa verið fyrirmynd sín lengi, og bætti því við að metið myndi vart standa lengi þar sem t.d. Jerry Sloan (1188 sigrar) og Phil Jackson (1095) væru á hælum hans.
 
„Það er fullt af gaurum sem eru nálægt þessu marki ef þeir halda áfram í nokkur ár í viðbót. Það eru þjálfarar þarna úti sem eru að vinna 50 eða 60 leiki á ári. Ekki eins og ég. Það er miklu erfiðara að ná þessu þegar maður vinnur 20 leiki á tímabili.“
 
 
H: Yahoo! Sports
Fréttir
- Auglýsing -