spot_img
HomeFréttirMagnaðir Keflvíkingar með sýningu í Ljónagryfjunni

Magnaðir Keflvíkingar með sýningu í Ljónagryfjunni

 
Þörf er á björgunarsveitunum víðar en við Fimmvörðuháls því í kvöld var neyðarástand í Ljónagryfjunni. Keflvíkingar skelltu sér í visitasíu til Njarðvíkur og hreinlega rústuðu kofanum. Lokatölur 79-103 Keflavík í vil sem nú leiðir undanúrslitaeinvígið 2-0. Allt bendir til þess að Njarðvíkingar séu á leið í sumarfrí á sunnudag því þeir voru sundurspilaðir á eigin heimavelli. Gunnar Einarsson smellti niður þremur stórum þristum seint í öðrum leikhluta og eftir það litu gestirnir ekki til baka. Gunnar var stigahæstur í mögnuðu liði Keflavíkur í kvöld með 26 stig en hjá Njarðvík voru þeir Guðmundur Jónsson, Nick Bradford og Friðrik Stefánsson allir með 13 stig.
Heimamenn komust í 10-8 með þriggja stiga körfu frá Guðmundi Jónssyni sem byrjaði leikinn með látum. Keflvíkingar gerðu næstu 8 stig og komust í 10-16 eftir þrist frá Draelon Burns. Hörður Axel átti fínar rispur í upphafsleikhlutanum í liði Keflavíkur sem leiddi 21-22 að honum loknum og Njarðvíkingar geta þakkað Guðmundi Jónssyni að munurinn hafi ekki verið meiri.
 
Snemma í öðrum leikhluta sigu Keflvíkingar aftur fram úr. Njarðvíkingar láku mikið í vörninni eins og gefur að skilja á lokatölunum og sá leki varð ekki stoppaður eftir að Gunnar Einarsson mætti með haglabyssuna. Í stöðunni 30-33 skyldu leiðir, Gunnar smellti niður þremur þristum á skömmum tíma og staðan orðin 33-44 Keflavík í vil. Guðmundur Jónsson var áfram beittur hjá heimamönnum og virtist vera sá eini sem hafði töggur í Keflvíkinga í kvöld, tvöfalt tæknivíti á hann og Hörð Axel Vilhjálmsson bar þess vott en aðrir í Njarðvíkurliðinu skrifast sem áhorfendur í kvöld.
 
Staðan í hálfleik var svo 35-51 fyrir Keflavík sem skoruðu því 18 stig gegn tveimur frá Njarðvík á síðustu metrum fyrri hálfleiks. Hörður Axel og Draelon Burns voru komnir með 13 stig í leikhléi fyrir Keflavík en Guðmundur Jónsson var með 10 stig í Njarðvíkurliðinu.
 
Ekki þarf að fjölyrða um síðari hálfleikinn. Vandræðagangur Njarðvíkinga hélt áfram gegn sterkum og einbeittum Keflvíkingum sem slökuðu ekki á eina sekúndu í leiknum. Lykilmenn í Njarðvíkurliðinu voru eins og lömb á leið til slátrunnar og ekki leið á löngu uns fjölmörgum stuðningsmönnum þeirra grænklæddu var nóg boðið og fóru að yfirgefa húsið.
 
Keflavík leiddi 52-77 eftir þriðja leikhluta og það skipti litlu máli hverjir komu þar inn á völlinn, allir áttu ljómandi góðan dag. Gunnar Einarsson var þeirra besti maður í kvöld en Hörður Axel, Draelon, Uruele, Sigurður Gunnar, Sverrir Þór og margir fleiri lögðu sitt af mörkum í þessum yfirburðasigri. Njarðvíkingar áttu á köflum í mesta basli með að koma boltanum upp völlinn og þegar það tókst enduðu sóknir heimamann oftar en ekki með erfiðu skoti gegn sterkri vörn gestanna. Svo fór að lokum að Keflavík hafði yfirburðasigur 79-103 og settu þar með stigamet á leiktíðinni í Njarðvík því ekkert lið hefur skorað fleiri stig í Ljónagryfjunni þetta tímabilið. Magnað met hjá Keflavík gegn liði sem fékk á sig fæst stig í deildarkeppninni!
 
Guðjón Skúlason og félagar í Keflavík hafa því unnið sjö leiki í röð í úrslitakeppninni gegn Njarðvíkingum frá árinu 2003 og virðast hafa nágranna sína í vasanum. Ef Njarðvíkingar ætla sér ekki í sumarfrí á sunnudag þá þurfa þeir að grafa upp kraftaverk miðað við frammistöðu sína í kvöld.
 
Gunnar Einarsson gerði 26 stig í liði Keflavíkur í kvöld og var besti maður vallarins. Hann steig upp á hárréttum tíma og kveikti í sínum mönnum þegar leikar voru jafnir og gaf þeim neistann til að rúlla upp gestgjöfum sínum. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var svo með 20 stig og 8 fráköst og þar næstur á bæ var Draelon Burns með 17 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Hjá Njarðvík voru Friðrik Stefánsson, Nick Bradford og Guðmundur Jónsson allir með 13 stig en heilt yfir var frammistaða þeirra og annarra leikmanna Njarðvíkurliðins slök og á köflum vandræðaleg.
 
 
Byrjunarliðin:
 
Njarðvík: Rúnar Ingi Erlingsson, Guðmundur Jónsson, Jóhann Árni Ólafsson, Nick Bradford og Friðrik Erlendur Stefánsson.
 
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Draelon Burns, Gunnar Einarsson, Uruele Igbavboa og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Dómarar leiksins: Björgvin Rúnarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson
 
Fréttir
- Auglýsing -