spot_img
HomeFréttirGuðjón: Strákarnir eiga hrós skilið fyrir vörnina

Guðjón: Strákarnir eiga hrós skilið fyrir vörnina

,,Við komum mjög vel stemmdir og undirbúnir í leikinn og höfðum svör við öllu sem Njarðvík var að gera en ég var mest hrifinn af varnarleiknum og ef ég segi sjálfur frá þá var hann bara drullugóður,“ sagði Guðjón Skúlason þjálfari Keflavíkur eftir 79-103 sigur sinna manna gegn Njarðvík í öðrum undanúrslitaleik liðanna. Staðan er 2-0 Keflavík í vil sem getur tryggt sér sæti í úrslitum Iceland Express deildarinnar næsta sunnudag.

,,Við lékum grimma vörn og höldum Njarðvík í 70-80 stigum tvo leiki í röð. Mínir menn eiga bara hrós skilið fyrir þessa vörn og svo um leið og við vinnum boltann þá var góð keyrsla á okkur. Hópurinn er vel stemmdur og eitt skrefið í viðbót sem við erum að taka en við eigum erfiðasta leikinn eftir,“ sagði Guðjón en verður það helsta verkefni Keflvíkinga næstu dagana að halda sér á jörðinni, jafn einbeittum og þeir voru í kvöld?

 
,,Það er alveg klárt mál, núna snýst þetta um að halda mönnum einbeittum, halda þeim við efnið og að allir séu tilbúnir til þess að vinna saman. Þetta verkefni, úrslitakeppnin, er kannski svolítið öðruvísi en það sem gert er yfir veturinn en mínir menn hafa brugðist mjög vel við því sem ég er að leggja fyrir þá og það sem Njarðvíkingar hafa fært okkur hafa strákarnir leyst mjög vel,“ sagði Guðjón sem varð fyrir smá skakkaföllum í kvöld þegar Draelon Burns haltraði af velli eftir slæma lendingu á öðrum ökkla í Njarðvíkurteignum.
 
,,Veistu ég veit ekki með stöðuna á honum, hann var eitthvað sár í ökklanum en við tjöslum honum saman fyrir næsta leik. Breiddin er samt til staðar hjá okkur þó erfitt væri að missta pósta úr liðinu á við Draelon svo við tjöslum honum einhvernveginn saman fyrir næsta leik.“
 
Fréttir
- Auglýsing -