spot_img
HomeFréttirNuggets lögðu Lakers - Bulls í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni

Nuggets lögðu Lakers – Bulls í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni

LA Lakers töpuðu sínum fjórða leik af síðustu fimm þegar þeir máttu játa sig sigraða gegn Denver Nuggets í nótt, 98-96. Lakers léku án Kobe Bryant sem er að hvíla bólgið hné, en leikurinn var engu að síður spennandi fram á síðustu sekúndu þegar Carmelo Anthony varði skot frá Derek Fisher. Denver er í öðru sæti Vesturdeildarinnar eftir sigurinn.
 
Kobe var ekki sá eini sem tók sér frí í nótt því að LeBron James var í jakkafötum á leik Cleveland Cavaliers og Chicago Bulls. Þeir síðarnefndu náðu að kreista fram sigur, 108-109, sem skipti öllu fyrir þá en engu fyrir Cavs, sem hafa þegar tryggt sér besta vinningshlutfall í deildinni.
 
Bulls eru þannig jafnir Toronto Raptors í áttunda sætinu en liðin eiga eftir að mætast og Raptors verða án síns besta manns Chris Bosh.
 
Loks vann Sacramento öruggan sigur á LA Clippers, 116-94, í leik sem skiptir litlu máli nema fyrir Tyreke Evans, en nýliði Kings getur orðið fjórði maðurinn í sögu NBA til að vera með 20 stig, fimm fráköst og fimm stoðsendingar að meðaltali á sínu fyrsta tímabili.
 
Takist það verður hann ekki í dónalegum félagsskap, með Michael Jordan, Oscar Robertson og LeBron James.
 
Fréttir
- Auglýsing -