spot_img
HomeFréttirUppákomur og innansveitarkrónika í Vesturbænum

Uppákomur og innansveitarkrónika í Vesturbænum

 
Auk hefðbundinna uppákoma í úrslitakeppninni á borð við borgarskotið og hringlið verður innansveitarkrónika í Vesturbænum í dag þegar yfirþjálfari sunddeildar KR og formaður körfuknattleiksdeildar KR mætast á parketinu í áheitaslag. Þeir Böðvar Guðjónsson formaður KKD KR og Guðmundur Hafþórsson formaður sunddeildar félagsins ætla að mætast í skotkeppni í hálfleik á þriðju viðureign KR og Snæfells. Pressan er gífurleg því sá sem vinnur skotkeppnina tryggir sinni deild áheitasöfnunina og ekki getur formaður körfuknattleiksdeildarinnar tapað fyrir sundkappa frammi fyrir fullri DHL-Höll, eða hvað? 
,,Áskorunin er semsagt þriggjastigakeppni þar sem skotið verður af 5 stöðum fyrir utan teig, sitthvort hornið, hornin 2 og svo fyrir miðja körfu, 3 skot á stað og gildir hver karfa 1 stig og svo eitt skot frá miðju sem gildir 5 stig. Við þurfum að skjóta þessi 16 skot á innan við 90 sekúndum þannig að þetta verður hröð keppni.
 
Við ætlum að biðja áhorfendur að leggja inn áheit – 100 – 500 – 1000kr eða frjáls framlög og sá sem vinnur fær upphæðina inn í sína deild,“ sagði Guðmundur yfirþjálfari sunddeildar KR en Böðvar var öllu digurbarkalegri þegar Karfan.is náði í skottið á honum.
 
,,Það kom skemmtilega á óvart að Guðmundur sundkappi setti sig í samband við mig og skoraði á mig í þessa keppni. Guðmundur er greinilega ekki meðvitaður um mitt huggulega stökkskot og þá staðreynd að ég er með það sem kallast á körfuboltamáli "unlimited range". Vinnie Johnson sem gerði garðinn frægan með Detriot Pistons er mín helsta fyrirmynd ásamt auðvitað World B Free. 3-stiga skotið er eins og sniðskot fyrir mig þannig að ég á von á að ég láti rigna í DHL-höllinni í dag. Ég sá rétt til Guðmundur á skotæfingu í gærmorgun og verð að segja að ég fékk ekki gæsahúð. En fyrir hann verður þetta lexía sem hann vonandi lærir eitthvað af og getur nýtt sér í skotkeppnum framtíðarinnar. Ég vil hvetja sem flesta til að heita á þennan viðburð enda rennur andvirðið til góðra mála sem er yngriflokkastarf körfu eða sunddeildar KR. Eitthvað segir mér að körfuknattleiksdeild KR eigi von á millifærslu fyrir hádegi á mánudaginn!
 
Ég vil svo hvetja alla til að mæta á leikinn á morgun. Við byrjum að grilla kl 14:30 og tipoff á slaginu 16:00. Leikurinn verður ekki sýndur í beinni þannig að eina lausnin er að drífa sig í DHL-Höllina og eiga góða stund saman,“ sagði Guðjón svo baráttuna verður að finna víða í Vesturbænum í dag.
 
KR-Snæfell
Leikur 3
DHL-Höllin kl. 16:00
 
Ljósmynd/ Böðvar klár í slaginn á firmamóti Vals.
 
Fréttir
- Auglýsing -