spot_img
HomeFréttirBrynjar: Hittum ekki neitt

Brynjar: Hittum ekki neitt

 
,,Heimavöllur skiptir svo sem engu máli þegar liðið er svona langt á mótið heldur liðið sem vill þetta meira og við leyfðum þeim að taka aðeins of mikið af sóknarfráköstum í dag. Það verður annað á mánudag,“ sagði Brynjar Þór Björnsson í samtali við Karfan.is eftir leikinn en Brynjar gerði 10 stig og tók 4 fráköst fyrir KR í 77-81 tapleik gegn Snæfell sem leiðir nú 2-1 í undanúrslitaseríu liðanna. 
,,Við hittum ekki neitt, sama hver var að skjóta. Við kunnum samt vel við okkur í Hólminum og það er gott að spila þar, góðar körfur og vonandi að við hittum þar á mánudag,“ sagði Brynjar en var þetta svona leikur á milli liðanna sem flestir bjuggust við, jafn og spennandi, ólíkt tveimur fyrstu þar sem liðin rassskelltu hvert annað.
 
,,Það bjóst enginn við því að liðin myndu rassskella hvert annað alla leikina en þetta er oft svona í úrslitakeppninni, fyrstu tveir leikirnir eru oft upp og niður. Snæfell spilaði vel í dag en við spiluðum ömurlega og ótrúlegt að þeir hafi ekki unnið okkur stærra,“ sagði Brynjar en hvað þarf KR að fínpússa fyrir mánudaginn?
 
,,Við þurfum að frákasta betur, stíga út og sleppa því sem ég var t.d. að gera í dag, að henda boltanum frá mér eins og hálfviti og fá einhvern þrist í andlitið. Það er samt alveg klárt að við hittum ekki svona illa í Hólminum og fáum bara oddaleik á fimmtudag, það verður fjör,“ sagði Brynjar og ljóst að KR-ingar ætla sér í Hólminn til að sækja sigur, enda ekkert annað í boði hjá Íslandsmeisturunum.

Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski

 
Fréttir
- Auglýsing -