Það er ekki hátt risið á meisturum LA Lakers í aðdraganda úrslitakeppninnar, en þeir töpuðu í nótt fyrir Portland Trail Blazers, 88-91, í spennandi leik þar sem 3ja stiga skot Pau Gasol geigaði um leið og lokaflautið gall. Kobe Bryant var kominn aftur í lið Lakers eftir smá frí, en það dugði ekki til. Lakers hafa þegar tryggt sér toppsætið í Vesturdeildinni, en mikil barátta er um næstu sæti og heimaleikjaréttinn.
Leikur Cleveland og Orlando Magic hefði að öllu jöfnu átt að einkennast af baráttu milli tveggja bestu liða deildarinnar, en þar sem þau hafa komið sér kirfilega fyrir í efstu tveimur sætunum var þetta lítið annað en æfingaleikur sem endaði þó með sigri Magic, 92-98.
LeBron James var ekki með Cavs, en Dwight Howard fór fyrir liði Orlando með 22 stig og 13 fráköst.
Hins vegar var baráttan í algleymingi í leik Chicago Bulls og Toronto Raptors þar sem liðin eru að bítast um lokasætið í úrslitakeppni Austurdeildarinnar. Chicago vann öruggan sigur, 88-104, þar sem Joakim Noah fór á kostum með 18 stig og 19 fráköst. Bulls eru nú einum sigri á undan Raptors þegar tveir leikir eru eftir og líklegri til að hreppa hnossið þegar upp er staðið.
Úrslit / Tölfræði og video:
Cleveland 92 Orlando 98
LA Lakers 88 Portland 91
New York 98 Miami 111
Toronto 88 Chicago 104
New Orleans 114 Minnesota 86
Golden State 120 Oklahoma City 117
Phoenix 116 Houston 106



