spot_img
HomeFréttirEiríkur: Hin mesta skemmtun fyrir alla íþróttaáhugamenn

Eiríkur: Hin mesta skemmtun fyrir alla íþróttaáhugamenn

 
,,Þetta hefur verið klassa einvígi tveggja sterkra og jafnra liða. Það sýnir sig best á þeirri staðreynd að heimavöllur virðist ekki skipta neinu máli. Þar verður engin breyting á og geri ég ráð fyrir háspennuleik allt til enda í Vesturbænum í kvöld,“ sagði Eiríkur Önundarson leikmaður ÍR þegar Karfan.is fór þess á fjörur við hann að rýna í oddaviðureign KR og Snæfells í undanúrslitum sem fram fer í kvöld.
,,Liðin eru vel skipuð þó KR-ingarnir hafi örlítið meiri breidd. Bæði lið eru vön að vera í þessari stöðu og flestir leikmenn liðanna hoknir af reynslu. Í leikjum sem þessum skilur á milli drengja og karlmanna. Alvöru menn stíga upp í leik sem þessum,“ sagði Eiríkur og rétt eins og flestir telur hann að KR eigi mikið undir Pavel í leiknum.
 
,,Fyrir KR-inga er gríðarlega mikilvægt að Pavel eigi góðan dag. Í sigurleikjum KR hefur hann leikið skínandi vel og verið að skora mun meira en í tapleikjunum. Þrátt fyrir litla reynslu af úrslitakeppni er mikil ábyrgð á honum. Morgan Lewis hefur verið góður í einvíginu og átt nokkuð jafna leiki. Stóru strákarnir, Fannar, Finnur og Jón Orri, hafa staðið fyrir sínu en þeirra hlutverk er fyrst og fremst að djöflast í vörninni, klára opnu færin og taka eitt og eitt frákast. Tommy hefur verið slakur í flestum leikjunum og á ég ekki von á að það breytist í kvöld. Brynjar og Darri hafa ekki náð að sýna sitt rétta andlit og tel ég að frammistaða þeirra gæti skipt sköpum í kvöld. Ef þeir spila vel eru KR-ingarnir líklegir,“ sagði Eiríkur en hvernig snýr þetta hjá Snæfell?
 
,,Hjá Hólmurunum er mikilvægt að allir fimm lykilleikmenn liðsins spili vel. Hlynur hefur verið mjög solid í þessum leikjum og hef ég engar áhyggjur af hans frammistöðu í kvöld. Burton hefur leikið vel og stýrt leik liðsins af festu líkt og í allan vetur. Lífsnauðsynlegt er fyrir Snæfell að Siggi, Nonni Mæju og Berkis skili stigum á töfluna. Ef þeir ná að sýna sitt besta í kvöld er afar líklegt að rútuferðin heim í Hólminn verði ánægjuleg. Liðin eru farin að þekkja vel inn á hvort annað og fátt sem á eftir að koma á óvart. Þjálfararnir munu sem fyrr leggja áherslu á að stýra hraðanum í leiknum. KR-ingar vilja spila hratt og slútta með hraðaupphlaupum. Snæfell vill aftur hægja á leiknum, stilla upp og keyra kerfin. Þetta verður án efa gríðarlega spennandi og hin mesta skemmtun fyrir alla íþróttaáhugamenn.“
 
Fréttir
- Auglýsing -