,,Ég kveið því ekki að koma hingað og mér leið ekki eins og við hefðum verið að tapa einhverju í Hólminum eftir leik fjögur. Stemmningin var einhvern veginn þannig hjá okkur eftir fjórða leikinn að við ætluðum okkur allir hingað og vinna oddaleikinn og fyrir utan byrjunina á fjórða leikhluta þá vorum við bara að spila þetta fantavel, vorum bara góðir,“ sagði Sigurður Þorvaldsson vígreifur eftir 83-93 sigur Snæfells í oddaleiknum gegn KR í kvöld. Sigurður gerði 28 stig í leiknum og tók 9 fráköst í liði Hólmara.
,,Það sem gerðist í fjórða leikhluta var að við hættum að spila, Ingi hamraði á því við okkur að vera ekki að verja einhverja forystu heldur halda áfram að keyra en við gerðum það ekki. KR setti þá niður ótrúlega þrista frá leikmönnum sem maður kýs kannski frekar að taki einmitt skot frekar en að keyra á körfuna. Þeir bara settu allt á þessum kafla á meðan við frusum í næstum því níu mínútur. Annars fannst mér eins og við næðum aftur taktinum þegar Berkis setti niður þristinn,“ sagði Sigurður en Berkis breytti þá stöðunni úr 78-79 í 78-82 Snæfell í vil og skammt til leiksloka.
Næst á dagskrá er Keflavík í úrslitum og þær rimmur þekkir Sigurður vel. ,,Já já, ég þekki það að tapa fyrir þeim í úrslitum og þó þetta hafi verið sætt hér í kvöld þá ætlum við ekki að missa okkur í fögnuðinum, bara gamla klassíkin að fagna í kvöld og hefja svo undirbúninginn á morgun. Gömul klisja sem er bara rétt. Þetta verður erfitt verkefni og Keflavík er með hörkugott lið enda lentu þeir í 2. sæti í deildinni. Þetta er ekki sama Keflavíkurliðið og við mættum í bikarnum og deild þarna með skömmu millibili. Þá voru þeir í lægð og við að toppa en nú eru þeir á hörkuskriði og við líka svo þetta verður bara hörkuspennandi,“ sagði Sigurður en Keflavík og Snæfell hafa þrívegis áður mæst í úrslitum þar sem Keflavík hefur ávallt haft betur.
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Sigurður var skæður í Snæfellssókninni í kvöld.



