Ekki var mikið um óvænt úrslit þegar úrslitakeppni NBA fór af stað í nótt, en dramatíkin var þó engu að síður til staðar. Lá t.d. við að allt færi úr böndunum í leik Boston og Miami og Chicago og Cleveland áttu einnig sínar rimmur.
Boston – Miami 85-76 (Boston leiðir 1-0)
Hvergi vou taugarnar eins þandar og hjá Miami og Boston, en eftir að Dwayne Wade og félagar hans höfðu byrjað mun betur, lentu þeir á vegg þar sem vörn Boston hrökk í gang í þriðja leikhluta. Á nokkrum mínútum breyttist staðan úr 47-61 í 71-68 og Boston, sem töpuðu sjö af síuðstu tíu leikjum sínum í deildarkeppninni, lönduðu kærkomnum sigri.
Sigurinn gæti hins vegar hafa verið dýrkeyptur því að Kevin Garnett gæti átt yfir höfði sér leikbann fyrir að gefa Quentin Richardson olnbogaskot í andlitið rétt fyrir leikslok, þegar leikurinn var að snúast upp í vitleysu. Leiknum lauk með sigri Boston, 85-76.
Cleveland – Chicago 96-83 (Cleveland leiðir 1-0)
Cleveland Cavaliers hafa lagt mikið á sig til að byggja meistaralið í kringum LeBron James, og þeir virtust til alls líklegir í nótt þegar þeir lögðu Chicago Bulls, 96-83. Shaquille O‘Neal var aftur kominn til leiks eftir aðgerð á hendi, ferskur og tíu kílóum léttari, og skipti sannarlega sköpum.
Eftir að Cavs hófu leikinn með miklu öryggi stigu þeir af bensíngjöfinni og Bulls komust inn í leikinn. Munurinn var kominn niður í sjö stig, 82-75, áður en toppliðið hrökk aftur í gang og gerði út um leikinn á lokamínútunum.
Atlanta – Milwaukee 102-92 (Atlanta leiðir 1-0)
Ekki var fyrirfram búist við því að Atlanta Hawks myndu lenda í vandræðum með Milwaukee Bucks, sem misstu sinn besta mann, Andrew Bogut, í meiðsli rétt fyrir úrslitakeppnina. Hawks áttu gott tímabil þar sem þeir sýndu mikinn stöðugleika og voru ekki lengi að taka stjórnina þar sem þeir leiddu með 20 stigum strax í fyrsta leikhluta.
Bucks, undir forystu nýliðans Brandon Jennings, gáfust hins vegar aldrei upp og sáu til þess að heimaliðið þurfti að hafa fyrir því að landa sigri, 102-92, en Jennings gerði 34 stig í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni.
Denver – Utah 126-113 (Denver leiðir 1-0)
Síðasti leikur næturinnar fór fram á Vesturströndinni þar sem Carmelo Anthony og JR Smith leiddu Denver Nuggets til sigurs gegn vængbrotnu liði Utah Jazz.
Melo gerði 42 stig í leiknum, en Smith gerði 18 stig í lokafjórðungnum, þar af þrjár 3ja stiga körfur í röð eftir að Jazz jöfnuðu 90-90. Nuggets litu ekki aftur eftir það og leoiknum lauk 126-113.
Jazz voru án Andrei Kirilenko og Mehmet Okur meiddist í upphafi leiks, auk þess sem Carlos Boozer var nýskriðinn úr meiðslum.



