spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar Íslandsmeistarar í 10. flokki karla

Njarðvíkingar Íslandsmeistarar í 10. flokki karla

 
Njarðvík og KR hafa eldað saman grátt silfur í allan vetur í 10. flokki karla en liðin voru rétt í þessu að ljúka úrslitaleik sínum þar sem Njarðvíkingar fögnuðu sigri 69-56 og eru Íslandsmeistarar. Glæsileg leiktíð að baki hjá þessum sterka flokki Njarðvíkinga sem einnig urðu bikarmeistarar fyrr á árinu. Birgir Snorri Snorrason leikmaður Njarðvíkur var valinn besti maður leiksins með 19 stig og 8 fráköst.
Njarðvíkingar mættu sprækir til leiks með sterkan varnarleik að vopni og leiddu 13-5 eftir fyrsta leikhluta þar sem Elvar Már Friðriksson gerði síðustu stigin fyrir græna af vítalínunni.
 
Í öðrum leikhluta skiptu KR-ingar yfir í svæðisvörn og ætluðu ekki að láta keyra yfir sig enda náðu þeir að jafna metin í 15-15 með 2-10 áhlaupi. Skömmu síðar fékk Matthías Orri Sigurðarson sína þriðju villu í liði KR og lék ekki meira í fyrri hálfleik.
 
Birgir Snorri Snorrason steig upp á réttum tíma í liði Njarðvíkinga þegar KR-ingar voru komnir á gott skrið. Birgir skoraði sex stig í röð fyrir Njarðvíkinga og grænklæddir gengu á lagið og leiddu 35-23 í hálfleik.
 
Birgir Snorri og Maciej Baginski voru atkvæðamestir hjá Njarðvík í hálfleik báðir með 10 stig en hjá KR voru þeir Martin Hermannsson og Darri Freyr Atlason báðir með 6 stig.
 
Rétt eins og í öðrum leikhluta voru KR-ingar ferskari í upphafi síðari hálfleiks og gerðu 8 stig gegn tveimur frá Njarðvík og staðan 37-31 Njarðvík í vil. Þetta reyndist fínt spark í rassinn fyrir Njarðvíkinga þar sem Valur Orri Valsson lyfti sér upp skömmu síðar og setti niður langan þrist og breytti stöðunni í 48-33. Birgir Snorri Snorrason hafði svo hvergi nærri sagt sitt síðasta þegar hann setti annan þrist fyrir Njarðvíkinga og breytti stöðunni í 53-39. KR-ingar áttu þó lokaorðið í leikhlutanum og staðan 53-41 fyrir fjórða leikhluta.
 
Í fjórða leikhluta gerði KR fyrstu fimm stig leikhlutans en Njarðvíkingar hleyptu þeim aldrei nærri heldur unnu öruggan 56-69 sigur og fögnuðu sínum öðrum stórtitli á árinu.
 
Birgir Snorri Snorrason gerði 19 stig og tók 8 fráköst fyrir Njarðvík. Næstur honum var Maciej Baginski með 17 stig og 9 fráköst og Valur Orri Valsson bætti við 16 stigum og 7 stoðsendingum. Hjá KR var Matthías Orri Sigurðarson stigahæstur með 16 stig og 4 fráköst og Martin Hermannsson gerði 13 stig og tók 10 fráköst.
 
Fréttir
- Auglýsing -