Hafnfirðingar hófu leikinn í svæðisvörn og voru öllu sprækari en Hólmarar og gerðu sex fyrstu stig leiksins. Eftir dræmar upphafsmínútur hrökk Björg Guðrún Einarsdóttir í gang í liði Snæfells og lét fjórum þristum rigna yfir Hauka í jafn mörgum tilraunum. Glæsileg rispa hjá Björgu og Snæfell leiddi 21-17 eftir fyrsta leikhluta þar sem Haukar reyndu að keyra á Snæfell sem var þó að fá mikið út úr því að frákasta vel.
Haukar skelltu sér í maður á mann vörn í öðrum leikhluta til að hrista upp í hlutunum en Snæfellingar voru þó með frumkvæðið framan af. Skotnýtingin var að leika Hauka grátt og stóru leikmenn liðsins voru komnir í bullandi villuvandræði, þær Dagbjört Samúelsdóttir og Lovísa Björt Henningsdóttir.
Hólmarar hittu áfram vel úr þriggja stiga skotum sínum sem léku Hauka grátt en þegar rétt rúmar tvær mínútur voru til hálfleiks gerðu Haukar sinn fyrsta þrist í leiknum og þar var að verki Árnína Lena Rúnarsdóttir og minnkaði muninn í 30-34. Þessi þristur frá Árnínu hreyfði við Haukum sem náðu að jafna 34-34 en Sara Mjöll Magnúsdóttir gerði mikilvæga flautukörfu fyrir Snæfell og því leiddu Hólmarar í hálfleik 38-36.
Björg Guðrún Einarsdóttir var með 14 stig hjá Snæfell í hálfleik og 12 þeirra komu úr þriggja stiga skotum en Margrét Rósa Hálfdánardóttir var með 9 stig og 11 fráköst hjá Haukum í hálfleik.
Árnína Rúnarsdóttir skaut þrist fyrir Hauka í upphafi leiks, full sjálfstrausts, þrátt fyrir að þristarnir hefðu ekki verið að detta hjá Haukum í fyrri hálfleik. Þessi rataði þó rétta leið hjá Árnínu og Haukar komust yfir 40-41. Skömmu síðar mætti Dagbjört Samúelsdóttir með annan þrist fyrir Hauka og staðan orðin 40-44 Hauka í vil. Ellen Alfa Högnadóttir jafnaði síðan metin í 49-49 með þriggja stiga körfu fyrir Hólmara og þannig skiptust liðin á forystunni en það voru Haukar sem leiddu 58-60 að loknum þriðja leikhluta þar sem Margrét Rósa Hálfdánardóttir skoraði síðustu stigin fyrir Hauka þegar þrjár sekúndur voru eftir af leikhlutanum.
Fjórði leikhluti var æsispennandi og náðu Hólmarar að jafna metin í 65-65. Auður Ólafsdóttir steig þá upp fyrir Hauka og splæsti í þriggja stiga körfu en þetta var fyrsti þristur Auðar í leiknum í sjö tilraunum og seinna mátti það var vera. Haukar komust í 65-68 með þessum þristi Auðar og síðustu þrjár mínúturnar var spennan í algleymingi.
Snæfell minnkaði muninn í 68-70 þegar 45 sekúndur voru til leiksloka. Haukar náðu ekki að skora í næstu sókn og Hólmarar héldu í sókn, þriggja stiga skot frá Björgu Guðrúnu geigaði en Hrafnhildur Sif náði þá sínu 19. frákasti í leiknum og Haukar brutu á henni. Hrafnhildur hélt á línuna þegar 9 sekúndur voru eftir en hún brenndi af fyrra skotinu og viljandi af því seinna. Í frákastabaráttunni fór boltinn útaf og þótti það nokkuð ljóst að Snæfell ætti innkastið en dómarar leiksins dæmdu Haukum boltann við mikil mótmæli Inga Þórs Steinþórssonar þjálfara Snæfells og skyldi engan undra.
Haukar héldu í sókn en misstu boltann þegar 3 sekúndur voru eftir svo ekki var öll nótt úti hjá Hólmurum. Snæfell fékk eina lokatilraun til að skora en Haukavörnin stóðst prófið og Haukar fögnuðu 68-70 sigri í leiknum. Frábær leikur í alla staði þar sem sigurinn gat auðveldlega dottið hvoru megin sem var.
Margrét Rósa Hálfdánardóttir átti frábæran dag í liði Hauka með 21 stig, 15 fráköst, 8 stoðsendingar og 7 stolna bolta, ekki fjarri þrennunni. Margrét þurfti mikið að leysa af stóru leikmenn Hauka sem voru í miklum villuvandræðum og fórst henni það verk afar vel úr hendinni. Fjölhæfur og efnilegur leikmaður hér á ferðinni. Næst Margréti Rósu í liði Hauka í dag var Árnína Lena Rúnarsdóttir með 15 stig og 5 fráköst.
Hjá Snæfell var Björg Guðrún Einarsdóttir stigahæst með 16 stig og 4 stoðsendingar. Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir og Sara Mjöll Magnúsdóttir voru báðar með 14 stig fyrir Snæfell en Hrafnhildur var auk þess með 19 fráköst. Hildur Björg Kjartansdóttir átti einnig ljómandi dag og landaði næstum því þrennu með 11 stig, 12 stoðsendingar og 9 fráköst.
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski