,,Þetta var fyrst og fremst vörnin en sóknin kemur með þegar vörnin er góð, við héldum uppi góðum hraða og það voru margir inni í leiknum hjá okkur,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson leikmaður Keflavíkur í samtali við Karfan.is eftir 97-78 stórsigur Keflvíkinga á Snæfell í fyrsta úrslitaleik liðanna í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.
,,Það gerir okkur vissulega öflugri þegar svona margir leikmenn eru virkir hjá okkur eins og í kvöld en ég hélt samt alltaf að þetta yrði hnífjafn leikur. Þeir eru samt með hörkulið en við náðum góðu forskoti sem þeir náðu aldrei að minnka almennilega en við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta var mjög góður sigur en við erum bara 1-0 yfir og erum að fara í svaðalegan leik á fimmtudag. Þetta er hörkulið sem við erum að spila við en það erum við líka þannig að þetta verður bara mjög gaman,“ sagði Sverrir Þór sem að vanda fór mikinn í varnarleik Keflavíkur en hann var þéttur í kvöld og undirstaðan í sigri Keflvíkinga þó vissulega hefðu þeir margir látið vel að sér kveða í sókninni.



