spot_img
HomeFréttirDenver tapaði á heimavelli - LeBron rústaði Bulls

Denver tapaði á heimavelli – LeBron rústaði Bulls

Utah Jazz fögnuðu óvæntum sigri í Denver í nótt þar sem þeir lögðu Nuggets að velli, en á meðan vörðu LeBron James og félagar sinn heimavöll gegn Chicago Bulls.
 
Eftir að Carmelo Anthony tætti Jazz í sig í síðasta leik lagði Jerry Sloan upp leik sinna manna með það efst á dagskipuninni að hleypa honum ekki í slíkan ham á ný. Það gekk eftir þar sem Utah, án Andrei Kirilenko og Mehmet Okur, tóku stjórn á leiknum undir forystu Deron Williams og Carlos Boozer. Williams var með 33 stig og 14 stoðsendingar þar sem hann keyrði miskunnarlaust upp að körfunni og fékk 18 vítaskot.
 
Denver létu þó ekki heldur fallast og voru inni í leiknum allt fram á lokasekúndurnar þar sem Anthony fór af velli með 6 villur og Williams og Kyle Korver kláruðu leikinn af vítalínunni.
 
Herra Big Shot, Chauncey Billups, fékk færi á að jafna leikinn fyrir Denver með flautukörfu, en skot hans hrökk af hringnum.
 
 
Chicago Bulls mættu til leiks í Cleveland tilbúnir í baráttu og sú varð raunin. Leikurinn var í hjárnum allan tímann þó að Cavs hefðu frumkvæðið þökk sé enn einni ofurmannlegri frammistöðu LeBron James, sem bíður við póstkassann þessa dagana eftir að fá MVP styttuna sína. James skoraði 40 stig, hvaðan sem var af vellinum, hvort sem var með þrumutroðslum eða dreifbýslisþristum og var slétt sama hver var að verjast honum.
 
James kom inn af bekknum þegar um 4 mínútur voru liðnar af lokaleikhlutanum og staðan 85-82. Hann tók til óspilltra málanna, setti 15 stig og gerði algjörlega út um leikinn og stefna Cavs því til Chicago með tvo sigra í farteskinu.
 
Joakim Noah, sem hefur gert sitt allra besta til að hleypa illu blóði í leikmenn og stuðningsfólk Cleveland átti stórfínan leik fyrir Bulls, með 25 stig og 13 fráköst, en það var til lítils.
Fréttir
- Auglýsing -