spot_img
HomeFréttirHrannar Hólm þjálfari ársins í Danmörku

Hrannar Hólm þjálfari ársins í Danmörku

Það hefur ekki farið hátt hér á Íslandi að Hrannar Hólm dró fram þjálfaraspjaldið í vetur og hóf að þjálfa SISU í dönsku kvennadeildinni. Hann tók við liðinu í nóvember og nú um helgina tapaði liðið BK Amager í leik um þriðja sætið og í hálfleik á leiknum var Hrannari veitt viðurkenning sem besti þjálfarinn í deildinni.
 
Kjörið fer þannig fram að þjálfarar liðanna níu í deildinni kjósa og er þetta því mikill heiður fyrir Hrannar.
 
Við náðum tali af Hrannari og spurðum eins og vera ber – áttir þú von á þessu?
„Nei, hafði ekki velt þessu fyrir mér, nema auðvitað þegar ég tók þátt í valinu, en það eru þjálfarar deildarinnar sem velja þjálfara ársins. Eftir á að hyggja þá má líklega segja að okkar lið hafi náð eins langt og mögulegt var miðað við mannskap og það varð veruleg breyting til batnaðar á leik liðsins eftir því sem á leið veturinn. Það kann að vera ástæðan fyrir því að aðrir þjálfara kunnu að meta okkar störf.“
 
Hvað kom til að þú tókst við liðinu?
„Það var nú þannig að við fjölskyldan fluttum til Danmerkur s.l. sumar og fljótlega fór dóttir mín (Helena Brynja) að æfa með SISU. Tímabilið hófst og það gekk frekar illa og óánægja var með margt. Þannig fór að þjálfarinn var látinn fara og var liðið þá í 8. sæti af 9 liðum í úrvalsdeildinni (Dameligaen). Í kjölfarið hafði formaður félagsins samband við mig, þar sem hann hafði frétt af því að ég væri gamall körfuhundur og spurði hvort ég væri til í að aðstoða og ég ákvað að gera það, bæði var dóttir mín í liðinu og svo var ég með aðstoðarmann sem átti að taka æfingar fyrir mig þegar ég kæmist ekki sökum vinnu. Í raun hafði ég ekki mikinn tíma í þjálfunina en sló samt til af því að það er jú gaman í körfu og ég hafði ekki þjálfað í háa herrans tíð 🙂 En síðan flutti Helena Brynja til Íslands (og lék í vetur með Haukum) og aðstoðarmaðurinn veiktist þannig að ég sat einn uppi með liðið – ef svo má segja.“
 
Hvernig gekk í vetur?
„Það hefur í raun gengið vonum framar, við unnum 9 af 11 leikjum í deildinni og hífðum okkur úr 8. sæti í 2. sætið … síðan hófst milliriðillinn (sama skrýtna fyrirkomulagið og á Íslandi) og þar gekk okkur síður, enda náðu öll hin þrjú liðin að styrkja sig verulega þegar þangað var komið, en SISU var í alvarlegum fjárhagserfiðleikum og okkar lið veiktist á sama tíma. Liðið okkar hefur ekki mikla breidd og er ekki hávaxið, en þær leika vel saman stelpurnar og eru tilbúnar að berjast, en við þurfum að eiga verulega góða leiki til að sigra helstu andstæðingana sem eru Aabyhøj, Hørsholm og BK Amager.
Við lentum gegn Lemvig í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og unnum tvö-núll og komumst í undanúrslit gegn Aabyhøj sem var efsta liðið í vetur. Undanúrslitin eru "best of three" þannig að það lið sem fyrr sigrar tvisvar kemst áfram. Við lékum fyrsta leikinn á útivell og eftir skelfilega byrjun þar sem við vorum undir í fyrri hálfleik, 21-40, náðum við að snúa vörn í sókn og landa sigri 72-77. Á heimavelli töpuðum við svo stórt, 53-79 og í oddaleiknum í Árósum höfðu þær sigur 53-44.
Í Danmörku leika svo liðin sem tapa í undanúrslitum einn leik um bronsið og þar mættum við ríkjandi meisturum frá BK Amager þar sem við töpuðum 78-59 á útivelli.“
 
Hvert verður framhaldið?
„Allt óvíst um framhaldið. Ég kom ekki til Danmerkur til að þjálfa heldur datt óvart inní hlutverkið, eins og ég hef sagt þér. Veit ekki hvort ég hef tíma og aðstöðu til að halda áfram að þjálfa, þó mér finnist það skemmtilegt.“
 
Hvernig er danski kvennboltinn vs þann íslenska?
„Ég held að í gegnum tíðina hafi Danir verið skörinni framar en Íslendingar í kvennaboltanum (Danir hafa t.d. unnið 5 af 6 landsleikjum þjóðanna), þótt ekki hafi munurinn verið mikill undanfarin ár. Í dönsku úrvalsdeildinni (Dameligaen) eru níu lið, þar af fannst mér sex vera nokkuð góð og þrjú mjög góð. Mögulega eru stúlkurnar í deildinni í Danmörku eitthvað stærri og sterkari en á Íslandi, en hvað leikni varðar held ég að gæðin séu ekki ósvipuð.“

[email protected]

Mynd: Hrannar á ferð með A landsliði karla í Ungverjalandi – Gísli Georgsson tók myndina

 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -