Pétur Sigurðsson stýrði Laugdælum til sigurs í 2. deild karla um síðustu helgi þegar Laugdælir lögðu Leikni í úrslitaleik 2. deildar. Fyrir leikinn var vitað að bæði Laugdælir og Leiknir myndu leika í 1. deild á næstu leiktíð. Karfan.is ræddi við Pétur þjálfara Laugdæla sem sagði sigurinn hafa komið með gífurlegum dugnaði og hörku.
,,Veturinn gekk mjög vel og vorum við með 14 manna hóp í allan vetur, blandaðan úr menntaskólanum og háskólanum. Við vorum með frekar mikla yfirburði í okkar riðli fyrir utan þegar við fórum með 6 leikmenn til Eyja en sigruðum þó í hörkuleik,“ sagði Pétur sem sjálfur kann sitthvað fyrir sér í boltanum sem leikmaður en hann gerði garðinn frægan í Borgarnesi en er nú búsettur á Laugarvatni við nám.
,,Við náðum að komast í 16 liða úrslit í Subway bikarnum með því að slá út 1. deildar lið Hattar og töpuðum síðan með 16 stigum á móti Tindastól í 16 liða. Sigruðum einnig Skallagrím í æfingaleik rétt fyrir tímabilið,“ sagði Pétur og það hefur Borgnesingnum væntalega ekki þótt leiðinlegt.
,,Úrslitakeppnin var erfið vegna þess að KKÍ setti hana í túrneringu og spiluðum við 5 leiki á 3 dögum og missti ég út 3 mikilvæga leikmenn þessa helgi út af einhverju pappírsveseni hjá KKÍ. En með gífurlegum dugnaði og hörku unnum við alla leikina og sigruðum 2. deildina verðskuldað,“ sagði Pétur en hvernig verður málum háttað á næstu leiktíð hjá Laugdælum?
,,Við verðum líklega mjög svipaðir á næsta ári í 1. deildinni en vonumst samt til að bæta við okkur mannskap. Vonandi að leikmenn sjái sér fært að vera að mennta sig og spila og æfa hörkubolta á Laugarvatni næsta vetur.“
Ljósmynd/ www.sunnlenska.is – Laugdælir fögnuðu vel og innilega sigri sínum í 2. deild karla um síðustu helgi.



