Dwight Howard, miðherji Orlando Magic, var í dag útnefndur varnarmaður ársins í NBA. Þetta er annað árið í röð sem þessum viðkunnanlega en harðsnúna jaka hlotnast þessi heiður.
Howard hlaut 576 stig í kjörinu og þar af 110 atkvæði í fyrsta sæti, en 122 fréttamenn höfðu atkvæðisrétt. Josh Smith hjá Atlanta Hawks var annar með 136 stig og Gerald Wallace, hjá Charlotte Bobcats var þriðji með 113 stig.
Howard var bæði með flest fráköst (13,2) og varin skot (2,8) í deildinni í vetur, einnig annað árið í röð, en það er einstakt afrek. Einungis Bill Walton, Kareem Abdul-Jabbar, Hakeem Olajuwon og Ben Wallace hafa náð þessum áfanga einu sinni á ferlinum. Þess verður þó að geta að varin skot voru ekki talin fyrr en árið 1973, en þá voru Wilt Chamberlain og Bill Russel hættir keppni.
Howard er 24 ára og varð í fyrra yngsti maðurinn til að vera valinn varnarmaður ársins. Hann hefur þegar markað sér sess sem besti miðherji deildarinnar og mun sennilega halda þeim sessi lengi, alla vegana hvað varðar varnarleikinn.
Fyrir utan stærðina er Howard gríðarlega léttur á fæti og snöggur sem gerir hann enn erfiðari viðureignar, en áhrif hans sjást hvað best á því að Orlando heldur andstæðingum sínum í lægstri skotnýtingu, 43,8%, og það skilaði sér einnig í næst besta vinningshlutfalli deildarinnar, á eftir Cleveland Cavaliers.



