spot_img
HomeFréttirKobe kláraði Thunder - Celtics niðurlægðu Miami

Kobe kláraði Thunder – Celtics niðurlægðu Miami

Kobe Bryant bar sína menn í LA Lakers til sigurs gegn Oklahoma Thunder í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA í nótt, þar sem hann gerði 39 stig. Á meðan unnu Boston góðan sigur á Miami, Atlanta vann Milwaukee og Phoenix jafnaði metin gegn Portland.
Meistarar Lakers fóru eins að ráði sínu í nótt og í fyrsta leiknum þegar þeir tóku stjórnina í upphafi leiks en misstu svo tökin. Thunder leiddi naumlega í hálfleik, en Lakers náðu frumkvæðinu á ný þangað til lítið var eftir af leiknum. Kobe jafnaði 88-88 , og leikurinn kláraðist eftir það af vítalínunni þar sem Lakers gerðu það sem til þarf, en Thunder nýttu ekki sínar sóknir. Jeff Green fékk færi á að jafna leikinn, en lokaskotið geigaði um leið og tíminn rann út, lokastaðan 95-92.
 
Kevin Garnett var fjarri góðu gamni í liði Boston Celtics eftir að hafa verið dæmdur í bann vegna atviks í fyrsta leiknum gegn Miami, þar sem hann gaf andstæðingi sínum olnbogaskot. Það kom ekki að sök því að Boston rúlluðu Miami upp, 106-77, og leiða einvígið 2-0. Glen Davis kom inn í liðið í stað Garnetts og kveikti svo sannarlega neistann í liðinu með 23 stigum og dugnaði um allan völl.
 
Miami leiddi raunar í öðrum leikhluta, en sitt hvorum meginn við hálfleikinn gerðu Celtics útaf við gestina með 44-8 kafla.
 
Phhoenix áttu harma að hefna gegn Portland Trail Blazers, sem unnu fyrsta leikinn í rimmu liðanna, og svöruðu með sannfærandi sigri, 119-90 í nótt. Vart er hægt að finna ólíkari lið á Vesturströndinni þar sem Phoenix hlaupa ákaft, en Portland vill hægja spilið eins og kostur er.
 
Portland, sem samdi í gær við miðherjann Marcus Camby til tveggja ára, fer þó heim á leið með einn sigur í farteskinu, og getur enn komið á óvart.
 
Loks unnu Atlanta sigur á Milwaukee, 96-86. Bucks eru án tveggja bestu manna sinna, en leika eingu að síður af mikilli hörku og Hawks þurftu að hafa mikið fyrir hlutunum. Josh Smith og Al Horford voru þó drjúgir undir körfunum og Joe Johnson var heitur utan af velli, þannig að sigurinn var aldrei í mikilli hættu. Hawks hefur unnið báða leikina í einvíginu hingað til.
Fréttir
- Auglýsing -