Helgi Már Magnússon og félagar í Solna Vikings hafa lokið þátttöku sinni í sænsku úrvalsdeildinni þetta tímabilið en liðið fékk skell í oddaleik gegn Norrköping í gærkvöldi. Lokatölur í leiknum voru 111-83 Norrköping í vil.
Helgi gerði 2 stig í leiknum og tók 3 fráköst á þeim 23 mínútum sem hann lék. Eitthvað var nýtingin að stríða Helga sem brenndi af öllum fimm þriggja stiga skotum sínum í leiknum.
Andrew Mitchell var stigahæstur hjá Solna í leiknum með 23 stig en hjá Norrköping var Kenneth Grant með 24 stig og 9 stoðsendingar.
Sviptingasamur vetur að baki hjá Solna sem máttu þola töluverðar breytingar á liðinu með nýjum leikmönnum og þjálfaraskiptum.



