spot_img
HomeFréttirMeð snert af lungnabólgu í bullandi vertíð

Með snert af lungnabólgu í bullandi vertíð

 
Áfram af hrakförum Hólmara því eftir fyrsta leik Keflavíkur og Snæfells í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn kom Jón Ólafur Jónsson, betur þekktur sem Nonni Mæju, við á spítala í Reykjavík þar sem hann fékk úr því skorið að hann væri með snert af lungnabólgu og það í bullandi körfuboltavertíð. Veikindin hafa verið að há leikmanninum í nokkurn tíma en hann er nú kominn á sýklalyf sem að sögn leikmannsins eru að vinna á veikindunum.
,,Ég er búinn að vera veikur lengi og síðustu þrjá leikina gegn KR var ég bara í lélegu ástandi og það sást líka í fyrsta leiknum í Keflavík. Ég var fyrst settur á sýklalyf og púst en nú er ég kominn á annan skammt af sýklalyfjum sem ég byrjaði á í gær og finn að ég er að skána,“ sagði Jón og kvað þrálát hóstaköst vera minni en síðustu daga.
 
,,Ég fann mest fyrir þessu í leikjunum þegar maður fór að pústa aðeins en ég mæti strax annað kvöld og vona að ég nái mér vel fyrir það, ætli maður verði ekki að segja hausnum að maður sé í góðu standi,“ sagði Jón og iðkar því netta sjálfsdáleiðslu þessi misserin.
 
Varðandi fyrsta leikinn gegn Keflavík þá fékk Snæfell afgerandi skell: ,,Ef eitthvað er þá er kannski betra að tapa leik með þessum hætti heldur en einu stigi í jöfnum leik og því komum við flottir til baka hér á heimavelli, ekki spurning.“
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Jón Ólafur í leik 3 gegn KR í undanúrslitum.
 
Fréttir
- Auglýsing -