Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder, var í dag útnefndur þjálfari ársins í NBA, en hann stýrði þessu unga en hæfileikaríka liði til 50 sigra í ár og inn í úrslitakeppnina þar sem þeir standa nú fyrir sínu gegn meisturum LA Lakers, þrátt fyrir töp í fyrstu tveimur leikjunum.
Brooks, sem tók við liðinu í vonlausri stöðu í fyrra, hefur náð að berja saman firnagott lið undir forystu stigakóngsins Kevins Durant og ætti að geta gert góða hluti næstu árin haldi hann kjarna liðsins saman.
Í kjörinu, þar sem 123 fréttamenn höfðu atkvæðisrétt, fékk hann 480 stig, þar af 71 atkvæði af 123 í fyrsta sætið. Næstur honum var harðjaxlinn Scott Skiles með 313 stig og 26 atkvæði í fyrsta sætið, en í þriðja sæti var Nate McMillan með 107 stig og níu atkvæði í fyrsta sæti.
Þetta er fyrsta reynsla Brooks af aðalþjálfarastörfum í NBA, en hann náði strax að tengjast leikmönnum og þó ekki hafi gengið vel í fyrra voru stöðug batamerki á liðinu og ljóst að hann var á réttri leið. Eigendur Thunder ákváðu því að gefa honum tækifæri á að halda áfram og sjá vart eftir því nú.
Framerjinn Nick Collison hefur verið hjá liðinu lengur en nokkur annar leikmaður segir að aðalstyrkleiki Brooks sé að hann sé ekki einn af þeim sem hafi unun af að hlusta á sjálfan sig tala. „Hann skilur hvað er í gangi hjá liðinu. Hann skynjar þegar við erum að drabbast niður og kveikir í okkur, eða ef okkur vantar sjálfstraust þá er hann tilbúinn að ýta við okkur án þess að pressa of fast.“
Nú er komið að sannleiksstund hjá Brooks og Thunder þetta árið. Þeir hafa sýnt að mikið býr í mannskapnum og að ýmislegt er hægt ef viljinn er fyrir hendi, en fáir búast þó við því að þeir muni ryðja Lakers úr vegi.
Gangi þeim hins vegar vel í sumar við að bæta við hópinn, þá helst reyndum miðherja sem getur bundið saman varnarleikinn, gætu þeir komið verulega á óvart næsta vetur og næstu ár þar á eftir.



