Chicago Bulls og Oklahoma City Thunder hafa ekki sagt sitt síðasta orð í úrslitakeppninni, en í nótt unnu Bulls góðan sigur á Cleveland Cavaliers í miklum spennuleik og Thunder lögðu meistara LA Lakers. Þá unnu Phoenix Suns mikilvægan útisigur á Portland Trail Blazers.
Eftir tvo hörkuleiki í Cleveland var ekki von á öðru en handagangur yrði í öskjunni þegar serían fór yfir til Chicago. Heimamenn byrjuðu af miklum krafti og virtust ætla að klára málið snemma í seinni hálfleik þegar munurinn var 21 stig, en þá hrukku Cavs í gang og söxuðu jafnt og þétt á forskotið.
Munurinn var kominn niður í átta stig þegar innan við 38 sek voru eftir af leiknum. Þá tók við mikill darraðadans þar sem Cavs sendu Bulls á vítalínuna þar sem þeir klikkuðu hvað eftir annað og á hinum endanum gekk allt upp, þar sem LeBron James og Mo Williams settu m.a. báðir 3ja stiga körfur. Karfa Williams minnkaði muninn niður í 1 stig þegar 3,8 sek voru eftir og Cavs sendu Luol Deng á línuna umsvifalaust. Hann setti fyrra skotið, en klikkaði á því seinna, Anthony Parker tók frákastið, skeiðaði upp völlinn og náði skoti um leið og flautan gall, en það geigaði.
Derrick Rose var með 31 stig fyrir Bulls og Kirk Hinrich var með 27, á meðan James gerði 39 fyrir Cavs.
Kvöldið byrjaði ekki vel hjá heimaliðinu þar sem Lakers komust í 10- 0 áður en Scott Brooks tók leikhlé og hristi upp í liðinu. Eftir það jafnaðist leikurinn, en Lakers héldu frumkvæðinu allt fram í byrjun fjórða leikhluta. Þar fóru Kevin Durant og Russel Westbrook í gang og drógu liðið í átt að sigri.
Jafnan hafa Lakers getað reitt sig á að Kobe Bryant komi sterkur inn á lokasprettinum, en Durant, sem hefur hingað til ekki verið annálaður fyrir varnarleik sinn, heimtaði að fá að dekka hann og hélt honum gjörsamlega niðri þar sem Kobe setti bara tvo skot utan af velli allan leikhlutann. Hann gerði þó 24 stig og fór með því fram úr Jerry West sem stigahæsti leikmaður Lakers í úrslitakeppni.
Durant var með 29 fyrir Thunder og Westbrook 27.
Portland kom verulega á óvart er þeir stálu heimaleik af Suns í upphafi rimmunnar en nú hafa Steve Nash og félagar kvittað fyrir það. Blazers hafa strítt við ótrúleg meiðsli í ár og eru nú m.a. án stjörnuleikmannsins Brandon Roy.
Phoenix byrjaði leikinn með miklum látum og leiddu 34-16 eftir fyrsta leikhluta. Blazers lögðu höfuðáherslu á að stöðva Nash og Amare Stoudemire, en við það losnaði um Jason Richardsson sem þakkaði pent fyrir sig með 42 stigum, þar af átta 3ja stiga körfum.
Portland reyndu að klóra í bakkann og náðu muninum niður í 11 stig, en komust ekki nær.



