spot_img
HomeFréttirIvey: Verður örugglega frábær saga sem ég segi síðar

Ivey: Verður örugglega frábær saga sem ég segi síðar

 
,,Þetta var langur dagur, bátsferð og flugferðir en þetta hafði allt saman góðan endi,“ sagði Jeb Ivey í samtali við Karfan.is eftir leik í Stykkishólmi í gær. Ivey var á löngu ferðalagi fyrir leik þar sem hann sigldi frá Finnlandi til Svíþjóðar og flaug frá Stokkhólmi til Íslands og náði í Hólminn í gær í tæka tíð fyrir leik en hann er að taka við leikstjórnendastöðunni af Sean Burton sem er meiddur. Ivey var hvergi banginn í leiknum í gær og gerði 13 stig og gaf 4 stoðsendingar í leiknum.
,,Ég var að kynnast nýju liðsfélögunum mínum í upphitun fyrir leik og þetta er í fyrsta sinn sem ég lendi í svona aðstæðum og verður örugglega frábær saga sem ég segi síðar þegar ég er orðinn gamall,“ sagði Ivey sem fékk hraðfyrirlestur um hætti Snæfellsliðsins frá Sean Burton.
 
,,Það var mikil hjálp í Burton og hann gaf mér harðsoðnu útgáfuna af því hver staðan væri, hvernig leikkerfin gengju fyrir sig og hvernig strákarnir í liðinu væru,“ sagði Ivey en hvað vill hann að standi eftir hjá sér að loknu þessu tímabili, sem er við það að renna sitt skeið, í mesta lagi þrír leikir eftir.
 
,,Besta niðurstaðan væri sú að við myndum lyfta bikarnum á loft og það er markmiðið,“ sagði Ivey en hvernig finnst honum að vera kominn aftur á klakann. ,,Andrúmsloftið, maður fær ekki oft svona tækifæri í lífinu og þetta er bara frábært.“
 
Fréttir
- Auglýsing -