„Þetta er náttúrulega magnað, ég var einmitt að hugsa um þetta í gær og man ekki til þess að nýr kani hefði komið í lið í sjálfum úrslitum. Það er mikið magn af salti og pipar í þessu og hrikalegt fyrir Keflavík að missa Burns ef það verður raunin en magnað ef þeir geta reddað sér svona,“ sagði Svali Björgvinsson hinn góðkunni körfuboltalýsandi hjá Stöð 2 Sport þegar Karfan.is kannaði viðbrögð hjá honum við þeim möguleika að Nick Bradford gæti verið á leið í Keflavíkurbúning.
„Eins og með Jeb Ivey yrði það magnað fyrir Keflavík að fá einhvern sem þekkir til deildarinnar en þetta var bráðfyndið í gær þegar Jeb var að kynna sig fyrir leikmönnum Snæfellsliðsins skömmu fyrir leik. Nick var reyndar með Keflavík á sínum tíma og var í sigurliði hjá þeim en báðir þessir leikmenn, Jeb og Nick, eru í toppformi en Nick er þó allt öðruvísi leikmaður en Draelon Burns en Jeb kannski líkari Sean Burton,“ sagði Svali og bætti við:
„Eldgosin eru að verða barnaafmæli miðað við þessa dramatík í úrslitunum, fyrst lendir Jeb í Hólminum 18 mínútur yfir sex í gær og nú Nick mögulega á leið í Keflavík, þetta fer í sögubækurnar. Leikirnir hafa líka verið svakalegir hjá þessum liðum, slátrun á sitt hvorn veginn,“ sagði Svali og vandaði spámönnum þessarar þjóðar ekki kveðjurnar.
„Að spá um framtíðina er mönnum ekki mjög tamt hér á landi eins og sást með efnahagshrunið og jarðfræðingarnir með gosin sín. Hið sama gildir með þetta einvígi því margir álitu Snæfell sterkari fyrir fyrsta leik og eftir hann héldu margir að Keflavík myndi vinna þetta 3-0. Þetta er fljótt að breytast en ef þetta er að gerast með Nick Bradford þá gæti það jafnvel truflað Keflavík meira en annað. Maðurinn er nýbúinn að keppa einvígi gegn Keflavík og það er súrrealísk staða og svo verður hann mögulega meistari með liðinu sem sendi hann í sumarfrí! Rannsóknarnefnd Alþingis þarf að taka þetta einvígi fyrir. Ég bara get ekki séð að svona nokkuð hafi gerst í íþróttasögunni og þetta gerir einvígið bara frábært, annars vil ég bara fimm leiki sem eru jafnir og spennandi,“ sagði Svali sem býst við klikkaðri stemmningu á morgun í þriðja leik liðanna en hann bíður spenntur eftir því að tengjast útsendingarbúnaðinum.
Ljósmynd/ Svali og Hörður Magnússon lýstu leiknum í beinni á Stöð 2 Sport í gær.



