spot_img
HomeFréttirReglugerð KKÍ um félagaskipti

Reglugerð KKÍ um félagaskipti

Það má með sanni segja að netheimar hafi verið glóandi í dag, Facebook, blog, spjallsvæði, Twitter og hvað þetta heitir allt saman. Ástæðan? Skipti Nick Bradford úr Njarðvík í Keflavík nú í miðju úrslitaeinvígi Keflavíkur og Snæfells í Iceland Express deild karla.

 
Sitt sýnist hverjum en margir hafa uppi stór orð um þessi skipti og finnst þetta ólöglegt, siðferðislega rangt og þar fram eftir götunum.

Ef rýnt er í reglugerðir KKÍ sem samþykktar voru á þingi sambandsins í maí 2009 stendur í reglugerð um félagaskipti í grein 1, lið a „Félagaskipti og hlutgengi annarra en íslenskra ríkisborgara fer eftir reglugerð um erlenda leikmenn.“ Þar með má í það minnsta túlka það þannig að reglugerð um félagaskipti eigi ekki við um erlenda leikmenn.

Í reglugerð um erlenda leikmenn, grein 4 stendur „Erlendum leikmanni er heimilt, með samþykki þess félags sem hann spilaði síðast hjá að skipta um félag hérlendis. Erlendur leikmaður sem óskar félagsskipta verður löglegur með hinu nýja félagi þegar félagaskipti hafa verið samþykkt af KKÍ.“

Út frá þessu má í það minnsta sjá að skiptin eru ekki ólögleg. Einhverjir munu þá benda á grein 8 í reglugerð um erlenda leikmenn sem hljóðar svo: „Sömu reglur gilda fyrir erlenda leikmenn og íslenska leikmenn, nema annað sé tekið fram.“ Þá er spurning hversu sterk setningin í grein 1 um félagaskipti er. Til að dæma um það þarf að kalla til lögfróða menn en mat undirritaðs er að reglugerð um erlenda leikmenn sé sú sem gildir um félagaskipti þeirra og engin önnur.

Reglugerðir KKÍ hafa í mörg ár leyft skipti á kanaígildinu allt tímabilið, helstu rökin í gegnum tíðina hafa verið þau að þegar lokað var á félagaskipti kananna þá áttu þeir það til að meiða sig allt í einu en þau meiðsli var hægt að laga með launahækkun.

Auk þess má segja að kanaígildið hafi alla tíð vegið þungt í hverju liði, í flestum tilvikum yrði t.d. úrslitaeinvígi lítið spennandi ef kaninn í öðru liðinu meiddist og spilaði ekki meira. Þá er eðlilegt að lið geti sótt sér nýjan mann. Það er líka mjög ólíklegt að nokkurt lið vilji skipta um kana í miðju úrslitaeinvígi, slíkt gera menn bara í neyð.

Fram að þinginu vorið 2009 gátu kanar ekki skipt um lið á Íslandi og ekki er langt síðan aðrir leikmenn þurftu að bíða í 30 daga frá félagaskiptum til að verða löglegir. Það hefur þótt betrumbót að fella út þessa 30 daga bið og á þinginu 2009 þótti mönnum eðlilegt og allir voru sammála um að opna á að kanar gætu skipt um lið á Íslandi. Ein rökin voru t.d. að það sparaði félögum peninga að geta fengið mann sem væri hvort sem er á landinu. Auk þess voru menn búnir að finna gat á þeirri reglugerð sem var, að mega sækja kana sem lék síðast erlendis. Hægt var að fá kana til að semja við t.d. danskt félag í einn dag og fá hann svo til baka með tilheyrandi kostnaði.

Það er nefnilega svo að reglugerðir KKÍ eru samþykktar á þingum KKÍ, þingum sem sitja fulltrúar þeirra félaga sem áhuga hafa á starfi sambandsins. Tillögur eru bornar upp og þingheimur ræðir og breytir og samþykkir. Það er ekki stjórn KKÍ og starfsmenn sem sitja í reykfylltum bakherbergjum og ákveða þetta. Á þinginu 2009 var stjórn KKÍ reyndar gefið leyfi til að breyta reglugerðum en slíkar breytingar þar svo að bera undir formannafundi eða þing KKÍ til að fá endanlegt samþykki. Undirritaður leyfir sér líka að fullyrða að stjórn KKÍ myndi aldrei breyta reglugerð eins og þessari með félagaskipti nema að tilkomi mikil pressa frá félögunum innan hreyfingarinnar.

Það er því nokkuð ljóst að ekkert í reglugerðum KKÍ bannar félagaskipti sem þessi, þau samræmast fullkomlega þeirri hugsun sem var að baki breytingunni sem gerð var á þinginu 2009. Hvort þetta er siðlaust skal ósagt látið, kanar eru atvinnumenn, þeir þurfa vinnu og ef hún býðst þá hljóta þeir að taka henni í flestum tilvikum. Lið sem missir kanann sinn í meiðsli í miðju úrslitaeinvígi þarf að bregðast við, kani sem er á landinu og er þekkt stærð ætti að vera góður kostur, í það minnsta ódýrastur.

Að lokum er rétt að nefna einn þátt sem hefur verið í umræðunni í dag, afhverju má skipta um kana en ekki aðra leikmenn. Það er vissulega sjónarmið en helstu rökin eru þau að aðeins er leyfilegt að hafa einn kana, lið getur aðeins sótt sér einn nýjan kana og sent þá hinn í burtu. Ef opið væri á félagaskipti annarra leikmanna væri hægt að ná sér í nýtt lið. Svona takmarkanir á fjölda kana eru þekkt um allan heim og reglur um kanaígildin í flestum tilvikum þannig að félög mega skipta sínu kanaígildi hvenær sem er tímabilsins. Það er ekki óalgengt að kanar sem klára tímabilið sitt snemma fara og halda áfram í öðru landi og þetta á ekki bara við um kana, síðastliðið vor varð Jón Arnór Stefánsson Íslandsmeistari með KR en hélt svo til Benetton á Ítalíu og kláraði tímabilið þar.

Það er þó þannig að reglugerðir KKÍ loka aldrei á öll göt, frekar en aðrar reglugerðir. Þær þurfa að vera undir sífelldri gagnrýni og hlutverk félaga og iðkenda í körfubolta er að átta sig á göllum þeirra og benda á svo hægt sé að laga. Ekki setjast bara í skotgrafirnar og gagnrýna KKÍ sem eitthvað einkahlutafélag heldur átta sig á að KKÍ er allir þeir sem að körfuboltanum koma og allir hafa sinn rétt á að leggja hluti til og um að gera að benda mönnum á, á réttum stöðum.

 
Svona reglugerðir verða að miða að því að þær virki í mörg ár, sé ekki breytt á hverju ári og miðist við líðandi tímabil. Sumir myndu segja að kanar Keflavíkur og Snæfells hafi ekki mikið vægi, íslenskir leikmenn liðanna hafi meira vægi. Það er bara ekki víst að sú staða verði næsta vetur.

 

Með körfuboltakveðju og von um spennandi úrslitaeinvígi.

Rúnar Birgir Gíslason
fréttastjóri karfan.is
Fréttir
- Auglýsing -