Boston Celtics eru kominr með annan fótinn inn í næstu umferð úrslitakeppninnar eftir magnaðan sigur á Miami í nótt, en SA Spurs og Utah Jazz unnu einnig leiki sína.
Paul Pierce átti stórleik í sigri Boston þar sem hann skoraði 32 stig, en þau mikilvægustu voru stigin tvö sem hann skoraði um leið og lokaflautið gall.
Boston voru með níu stiga forskot i fjórða leikhluta, en Miami undir forystu Dwayne Wade, komu sterkir til baka og náðu forystunni um tíma.
Boston þurfa því bara að sigra í næsta leik til að fá kærkomna hvíld fyrir gamla fætur, en þeir hafa átt góða daga það sem af er úrslitakeppni og virðast vera að toppa á réttum tíma eftir að hafa verið fastir í meðalmennskunni lengi vel í vetur.
Annað lið sem hefur verið að finna sig í úrslitakeppninni er SA Spurs sem unnu í nótt góðan sigur á grönnum sínum í Dallas Mavericks. Manu Ginobili sýndi enn og aftur að hann er þyngdar sinnar virði í gulli og ekki bara þegar kemur að því að drepa aðskotahluti í miðjum leik. Hann nefbrotnaði í þriðja leikhluta en lét tjasla sér aftur saman og sneri til baka tvíefldur þar sem hann gerði 11 stig í lokafjórðungnum.
Dirk Nowitzki átti sinn vanalega stórleik fyrir Dallas þar sem hann gerði 35 stig, en Tim Duncan skilaði einnig sínu með 25 stig.
Leikurinn var kaflaskiptur til að byrja með og Dallas náði góðum kafla á meðan hugað var að Ginobili, en breiddin var með Spurs í þetta sinnið og þeir voru sterkari á lokasprettinum.
Varamenn Utah Jazz, og þá sérstaklega Paul Millsap, voru lykilinn að góðum sigri Utah, sem er að gera Denver lífið leitt þrátt fyrir mikil meiðslavandræði.
Denver byrjaði mjög vel þar sem Carlos Boozer og Deron Williams voru ekki að finna sig, en í öðrum leikhluta var komið að Millsap. Hann kom af bekknum og tætti Denver í sig þar sem hann skoraði 18 stig í leikhlutanum og endaði með22 og 19 fráköst. Við það kviknaði í stjörnunum og sigur Jazz var aldrei í hættu eftir það.



