spot_img
HomeFréttirBárður: Spennustigið verður hátt í leiknum

Bárður: Spennustigið verður hátt í leiknum

 
,,Hefur einhvern tíman verið svona mikil dramatík í úrslitum? Þetta er alveg með ólíkindum og maður veit vart hvað maður á að segja. Annars skil ég vel að Hólmarar fari í þessari aðgerðir og ekki óeðlilegt að þeir geri þetta og svo varðandi Nick Bradford þá er hann enn á landinu og alls ekkert óeðlilegt við neitt af þessu, samt mjög sérkennileg staða,“ sagði Bárður Eyþórsson þjálfari Fjölnis í samtali við Karfan.is um stöðuna sem komin er upp í úrslitaeinvíginu í Iceland Express deild karla. Keflavík og Snæfell mætast í sínum þriðja leik í dag kl. 16:00 í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ.
Við ræddum stöðu mála við Bárð sem sagði sigur í dag gríðarmikilvægan fyrir bæði lið.
 
,,Mikið af þessum leikkerfum sem Keflavík er með eru þau sömu og Njarðvík var með í vetur og Sigurður Ingimundarson innleiddi í félagið. Svipuð kerfi og Keflavík var að hlaupa síðast þegar Nick lék með þeim og hann ætti allavega að þekkja mikið af þessu. Þá þekkir Nick leikmenn liðsins og hugarfarið og ég er ekki frá því að hans skapferli henti Keflavík betur en Njarðvík,“ sagði Bárður og bætti við að í úrslitakeppninni væri Bradford ávallt á heimavelli.
 
,,Úrslitakeppnin er keppnin hans Nick Bradford og þó hann hafi ekki spilað eins vel með Njarðvík í vetur og hann gerði með Grindavík í fyrra held ég því samt fram að úrslitakeppnirnar séu hans keppnir, í þessu þrífst hann best,“ sagði Bárður sem bíður þó eftir hasarnum.
 
,,Maður er alltaf að bíða eftir því að það verði einhver læti í þessari keppni og það virðist í undanúrslitum og í úrslitum að annað liðið klikki oft í leikjum sínum og fari langt út fyrir sína hluti og það hefur komið mér verulega á óvart en ég held að það hljóti að vera að bæði lið komi klár í leik dagsins,“ sagði Bárður og ræddi um mikilvægi sigursins í þriðja leik.
 
,,Annað liðið kemur kannski svolítið afslappaðra í fjórða leikinn eftir sigur í þeim þriðja en sigur í leiknum í dag er gríðarlega mikilvægur, spennustigið verður hátt í þessum leik og erfitt að segja hvað verður því þetta er úrslitakeppnin. Keflavík verður samt að vinna því þeir eru heima og að sama skapi vill Snæfell fara með sigur í Hólminn á sinn eigin heimavöll þar sem þeim gengur yfir höfuð vel nema á dögunum gegn KR. Ef Keflavík vinnur í dag vita þeir að þeir geta alltaf komið aftur heim en við höfum samt séð að heimavöllur skiptir ekki öllu máli. Það sem gæti skipt máli er Ivey og hann spilar stórt hlutverk og svo breytist þetta líka mikið þar sem Nick kemur inn í lið Keflavíkur svo það skiptir leik dagsins miklu máli hvernig Bradford verði með Keflavík í leiknum.“
 
Fréttir
- Auglýsing -