Snæfell leiðir úrslitaeinvígið 2-1 gegn Keflavík eftir 85-100 sigur í Toyota-höllinni í dag. Keflvíkingar misstu gesti sína langt frá sér snemma leiks og reyndu að klóra í bakkann en sprungu á limminu á loksprettinum.
4. leikhluti
Snæfell hafði á endanum öruggan 85-100 sigur í leiknum þar sem Keflavík gerði þó heiðarlega tilraun til þess að komast nærri. Maður leiksins, Hlynur Bæringsson, hélt sínum mönnum við efnið í dag með 29 stig og 13 fráköst. Nýji/gamli leikmaður Keflavíkur, Nick Bradford, var stigahæstur í liði heimamanna með 26 stig. Nánar verður greint frá leiknum síðar…
3. leikhluti
Staðan er 64-70 fyrir Snæfell að loknum þremur leikhlutum í Toyota-höllinni en heimamenn í Keflavík hafa hysjað vel í brók eftir slakan fyrri hálfleik og unnu þriðja leikhluta 28-23. Hlynur Bæringsson hefur verið að draga sína menn í Snæfell áfram en þeir Nick Bradford, Gunnar Einarsson og Urule Igbavboa hafa allir tekið við sér í liði Keflavíkur og munar um minna.
2. leikhluti
Snæfell er yfir 36-47 þegar blásið hefur verið til hálfleiks í Toyota-höllinni í Keflavík. Heimamenn í Keflavík unnu leikhlutann 21-20 og náðu að herða aðeins tökin í vörninni sem var fremur döpur í fyrsta leikhluta. Nick Bradford er kominn með 10 stig hjá Keflavík í hálfleik og þau skipti sem kappinn hefur farið á línuna hrópa stuðningsmenn Snæfells úr stúkunni: Njarðvík, Njarðvík,Njarðvík svo kyndingarnar fá líka að vera með. Hjá Snæfell er Hlynur Bæringsson kominn með 9 stig og 5 fráköst. Martins Berkis hóf leikinn mjög vel með Snæfell en er kominn með 3 villur og lék ekki síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik. Frákastabaráttan er að fara illa með Keflvíkinga sem eru bara komnir með 7 fráköst í fyrri hálfleik gegn 18 fráköstum hjá Snæfell.
1. leikhluti
Snæfell leiðir 15-27 að loknum fyrsta leikhluta en Martins Berkis hefur leikið af mikilli festu hjá Hólmurum í upphafi leiks en að sama skapi hefur vörn heimamanna verið afar lek. Urule er kominn með 6 stig hjá Keflvíkingum en í liði Snæfells er Berkis kominn með 8 stig.
Byrjunarliðin:
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Gunnar Einarsson, Nick Bradford, Jón N. Hafsteinsson, Urule Igbavboa.
Snæfell: Jeb Ivey, Emil Þór Jóhannsson, Sigurður Þorvaldsson, Martins Berkis, Hlynur Bæringsson.
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson
Ljósmynd/ Nick Bradford hitar upp með Keflvíkingum.



