,,Við spiluðum mjög vel í dag og Keflavík kom með áhlaup sem við stóðum af okkur svo þetta var góður sigur. Við vorum ekkert farnir að skjálfa þegar Keflavík nálgaðist heldur héldum áfram að spila saman sem lið í bæði vörn og sókn,“ sagði Jón Ólafur Jónsson leikmaður Snæfells í samtali við Karfan.is eftir sigur Hólmara á Keflavík í dag.
Nokkuð annar bragur var á Snæfellsliðinu í dag miðað við það lið sem mætti til leiks í Keflavík í fyrstu úrslitaviðureigninni.
,,Við vorum að spila stífar í dag en í fyrsta leiknum og almennt bara betur tilbúnir því við vorum steinsofandi eftir erfiða KR seríu,“ sagði Jón en er komin pressa á Snæfell núna að klára mótið á sínum heimavelli?
,,Það kemur ekkert annað til greina en að klára þetta heima í næsta leik, bara klára dæmið og grípa tækifærið þegar það gefst,“ sagði Jón en hvernig liggja síðustu úrslitaeinvígi Snæfells gegn Keflavík í honum, eru þau sálfræðilegur baggi eða hvatning?
,,Ég spilaði ekkert í fyrstu tveimur seríunum gegn Keflavík 2004 og 2005 sökum bakmeiðsla en ég var með 2008 og bæði sem áhorfandi og leikmaður er það rosalega svekkjandi að tapa titlinum þrisvar á skömmum tíma upp í hendurnar á sama liðinu og það kemur ekki fyrir aftur. Þetta þvælist svo sem ekkert fyrir manni þessar fyrri viðureignir en ég er viss um að leikmenn eins og Sigurður (Þorvaldsson) og Hlynur (Bæringsson) hafa þessi einvígi öll í fersku minni,“ sagði Jón en eru bæði Keflavík og Snæfell það sterk lið í dag að þau eigi bæði auðvelt með að innleiða nýja leikmenn í sinn hóp á þessum tímapunkti?
,,Það er spurning, fyrir okkar hönd er Ivey ekkert svo ósvipaður Sean Burton en hann stýrir þessu eins og herforingi og er góð skytta.“



